Frystu eignir hryðjuverkamannanna

Frá kirkjunni St. Anthony's Shrine á Sri Lanka þar sem …
Frá kirkjunni St. Anthony's Shrine á Sri Lanka þar sem ein af sprengjunum sprakk. AFP

Yfirvöld á Sri Lanka segjast nú vera búin að leysa upp stærstan hluta þess hóps sem talinn er tengjast hryðjuverkaárásunum á páskadag. Hald hefur verið lagt á efni til sprengjugerðar og fjármunir að andvirði 40 milljón dollara hafa verið frystir.

„Það voru líka tveir í hópinum sem voru sérfræðingar í sprengjugerð og þeir eru nú látnir,“ hefur Reuters fréttaveitan eftir  starfandi lögreglustjóranum, Chandana Wickramarate.  „Þeir höfðu geymt hluta af sprengiefninu fyrir frekari árásir og við höfum lagt hald á þetta allt.“

Rannsakendur eru þó enn að reyna að hafa uppi af 10 einstaklingum til viðbótar sem taldir eru hafa átt stóran þátt í undirbúningi hryðjuverkaárásanna, sem kostuðu meira en 250 manns lífið, að því er Reuters hefur eftir heimildamanni í her Sri Lanka.

„Rannsóknin sýndi að 8-10 manns til viðbótar funduðu með hinum skipuleggjendunum,“ sagði heimildamaðurinn.

Þá var lagt hald á  og eignir að andvirði um 40 milljónir dollara sem voru í eigu árásarmannanna og annarra sem taldir hafa tekið þátt í skipulagningunni frystar, segir Ruwan Gunesekera talsmaður lögreglu.

Yfirvöld á Sri Lanka hafa greint frá því að tveir lítt þekktir hópar íslamskra öfgatrúarmanna hafi staðið fyrir árásunum,  National Tawheed Jamaath (NTJ) og Jamathei Millathu Ibrahim (JMI). Vígasamtökin Ríki íslams hafa hins vegar lýst yfir ábyrgð á árásunum og sagði forsætisráðherra Sri Lanka, Maithripala Sirisena, um helgina að allt benti til þess að samtökin hefðu átt þar þátt í máli.

Rannsakendur frá átta löndum, þar með talið frá bandarísku alríkislögreglunni FBI og Interpol, aðstoða yfirvöld við rannsóknina.  Er m.a. verið að skoða hvort að skipuleggjendur hafi fengið aðstoð að utan, hverjir hafi fjármagnað aðgerðirnar og hvort trúverðug tengsl finnist við Ríki íslams.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert