Verður bannað að hylja andlit sitt

Kona klæðist búrku. Þótt hvorki búrka né niqab séu nefnd …
Kona klæðist búrku. Þótt hvorki búrka né niqab séu nefnd sérstaklega í yfirlýsingu forsetaskrifstofunnar, beinist bannið þó gegn þeim klæðnaði. Mynd úr safni. AFP

Yfirvöld á Sri Lanka hafa bannað að fólk hylji andlit sín í kjölfar sjálfvígsárása sem gerðar voru í landinu á páskadag. Rúmlega 250 manns létu lífið í árásunum og hundruð særðust.

Maithruipala Sisirsena, forseti Sri Lanka, greindi frá því í dag að neyðarlög væru notuð til að koma slíkum hömlum á frá og með deginum í dag. Greindi forsetaskrifstofan frá því að öll þau klæði sem „hindri að hægt sé að bera kennsl“ á fólk verði bönnuð til að tryggja þjóðaröryggi.

BBC segir hvorki niqab-slæður né búrkur sem múslimskar konur klæðast sumar hverjar hafa verð nefndar sérstaklega, en banninu sé engu að síður beint gegn þessum fatnaði.

Mikill viðbúnaður er enn á Sri Lanka í kjölfar árásanna og hafa um 150 manns nú verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins. Faðir og tveir bræður meints skipu­leggj­anda sprengju­árás­anna, Za­hram Hashim, voru þá drepn­ir í aðgerðum ör­ygg­is­sveita á föstu­dag­inn, að sögn lög­reglu.

Hermaður stendur vörð á Sri Lanka. Mikill viðbúnaður hefur verið …
Hermaður stendur vörð á Sri Lanka. Mikill viðbúnaður hefur verið í landinu eftir árásirnar. AFP

Hashim, sem sprengdi sjálf­an sig upp á hót­eli í höfuðborg Sri Lanka, Colom­bo, stofnaði íslamska hóp­inn Nati­onal Tawheed Jam­ath, NTJ, sem hef­ur nú verið bannaður. Hópn­um hef­ur verið kennt um árás­irn­ar þótt hann hafi ekki lýst ábyrgðinni á hend­ur sér. Lög­regl­an hef­ur nú þegar ráðist inn í höfuðstöðvar NTJ í bæn­um Kattanku­dy. 

Yfirvöld hafa þó varað við að fleiri vígamenn gangi enn lausir og segjast nú leita 140 stuðningsmanna vígasamtakanna Ríkis íslams, en samtökin lýstu yfir ábyrgð á árásunum.

Um 21 milljón manna býr á Sri Lanka og eru um 10% þeirra múslimar. Einungis lítill hluti múslimakvenna í landinu er þó talinn klæðast búrku eða bera niqab.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert