Handtóku formlega fyrrum forstjóra Interpol

Meng Hongwei er fyrrverandi forstjóri Interpol og einnig var­aráðherra al­manna­ör­ygg­ismála …
Meng Hongwei er fyrrverandi forstjóri Interpol og einnig var­aráðherra al­manna­ör­ygg­ismála í Kína. AFP

Kín­versk yf­ir­völd handtóku formlega Meng Hongwei, fyrr­ver­andi for­stjóra In­terpol, vegna gruns um að þiggja mútur. Hann á yfir höfði sér ákæru fyrir meinta spillingu og verður hún líklega lögð fram fljótlega. Meng var einnig var­aráðherra al­manna­ör­ygg­ismála Kína.

Það vakti mikl­ar áhyggj­ur alþjóðasam­fé­lags­ins er Meng hvarf, að því er virt­ist spor­laust í sept­em­ber í fyrra. Eig­in­kona hans til­kynnti að hans væri saknað eft­ir að hann fór í ferð heim til Kína, en Meng hjón­in voru bú­sett í Frakklandi þar sem höfuðstöðvar Interpol eru, þegar þetta átti sér stað. 

Fljótlega eftir hvarf hans sagði hann af sér sem for­stjóri In­terpol eft­ir að greint var frá að hann væri í haldi kín­verskra yf­ir­valda. Í október sökuðu kínversk stjórnvöld hann um að þiggja mútur. 

Meng var rekinn úr Kommúnistaflokknum og svipt­ur öll­um stöðum sem hann gegndi fyr­ir kín­versku stjórn­ina. Kínversk stjórnvöld rannsaka einnig samflokksfélaga hans og samstarfsmenn sem tengjast honum á einn eða annan hátt. 

Gagnrýnendur segja mál Meng, skyndilega uppsögn hans úr starfi og brottrekstur hans úr Kommúnistaflokknum, sé runnið undan rifjum forseta landsins Xi Jinping sem stundi það að ryðja pólitískum óvinum sínum úr vegi. 

Yfir milljón manns hefur verið refsað vegna pólitískra skoðanna sinna á þeim sex árum sem Jinping hefur setið á valdastóli.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert