Yfir 1.000 látnir vegna ebólu

Greind hafa verið 50 þúsund ebólu-tilfelli í Austur-Kongó.
Greind hafa verið 50 þúsund ebólu-tilfelli í Austur-Kongó. AFP

Fleiri en þúsund manns hafa nú látið lífið í ebólu-faraldri í Austur-Kongó samkvæmt tölum þarlendra heilbrigðisyfirvalda. Fyrstu tilfellin greindust í ágúst á síðasta ári og hefur nú orðið næst-banvænasti ebólu-faraldur mannkynssögunar að því er segir í umfjöllun BBC.

Haft er eftir Michael Ryan, aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO), að vantraust og átök trufli aðgerðir sem til þess séu fallnar að vinna buga á útbreiðslu veirunnar. Þannig hafa til að mynda 119 skjalfestar árásir verið gerðar á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk þeirra frá því í ársbyrjun.

WHO gerir ráð fyrir áframhaldandi hraðri útbreiðslu.

BBC segir heilbrigðisstarfsfólk  þó hafa gott aðgengi að bóluefni og að þegar sé búið að bólusetja um 100 þúsund manns. Öryggisástandið í austurhluta landsins geri það hins vegar að verkum að erfiðlega gengur að bólusetja íbúana. Þá vantreysti íbúar margir hverjir heilbrigðisstarfsfólkinu.

Á sama tíma og greind hafa verið 50 þúsund tilfelli af ebólu hafa verið staðfest mislingasmit í 14 af 26 héröðum landsins, bæði í þéttbýli og á landsbyggðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert