Hávaðasamar deilur um hanagal fyrir dóm

Haninn Maurice átti að koma fyrir dómara í dag en …
Haninn Maurice átti að koma fyrir dómara í dag en mætti ekki, frekar en stefnendurnir, eldri hjón sem saka hanann um hljóðmengun. AFP

Haninn Maurice er kominn í hann krappan sökum hanagals sem hann stundar við sólarupprás, líkt og sönnum hönum sæmir, en Maurice og eiganda hans hefur verið stefnt af ósáttum nágrönnum. 

Maurice, sem er innan við ársgamall og því iðinn við hanagalið, er sakaður um hljóðmengun af eldri hjónum sem festu kaup á landi og byggðu sér sumarhús á frönsku eyjunni Oléron fyrir nokkrum árum. Eigandi Maurice, Corinne Fesseau, segir að haninn hennar sé einfaldlega að gera það sem hönum er skylt að gera. 

Corinne Fesseau, eigandi Maurice.
Corinne Fesseau, eigandi Maurice. AFP

Hanagal fylgifiskur sveitasælunnar

Hvorki Maurice né stefnendurnir voru viðstödd þegar fyrirtaka málsins fór fram í bænum Rochefort í dag. Málið hefur hins vegar vakið athygli heimamanna sem fjölmenntu fyrir utan dómshúsið og sýndu honum stuðning. 

Stefnendurnir, Jean-Louis Biron og Joëlle Andrieux, komu sér upp sumarhúsi á eyjunni fyrir um 15 árum og höfðu séð fyrir sér að setjast að í húsinu í ellinni. Þau kvörtuðu undan Maurice og hefur málið verið til umfjöllunar í héraðsmiðlunum síðastliðin tvö ár. 

Fesseau hefur búið í Oléron í 35 ár og segir hún málið einfalt: Vilji fólk búa utan borgarmarkanna verður það einfaldlega að sætta sig við hanagal, það sé óásættanlegt að krefjast þess að galið hætti. 

Hvað framtíð Maurice mun bera í skauti sér skal ósagt látið, en dómurinn mun kveða upp úrskurð sinn í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert