O'Rourke játar að hafa hagnast á þrælahaldi

Beto O'Rourke, einn forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, segir það hafa haft mikil …
Beto O'Rourke, einn forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, segir það hafa haft mikil áhrif á sig að komast að því að forfeður sínir hefðu haldið þræla. AFP

Forfeður Beto O’Rourke, eins frambjóðendanna sem þessa dagana keppast um útnefningu Demókrataflokksins, til forsetaembættisins, voru þrælahaldarar. Guardian fjallar um málið og segir O‘Rourke nú gangast við því í fyrsta skipti að hann og börn hans hafi hagnast á þrælahaldi.

Það var á fundi í Beaufort sem O’Rourke var nýlega spurður um skoðun sína á bótum til handa afkomendum þeirra sem voru þrælar á plantekrum í Bandaríkjunum. „Já“, svaraði hann þá og kvað þörf á að styrkja Bandaríkin frá rótum. „Mannrán á fólki frá Vestur-Afríku, sem flutt var hingað í hlekkjum, lagði grunninn að auði Bandaríkjanna,“ sagði hann og kvað Bandaríkjamenn af afrískum uppuna ekki hafa fengið að njóta ávaxta þessa erfiðis.

Full þörf væri á að gera upp þennan hluta sögu Bandaríkjanna. „Hvítir Bandaríkjamenn í dag þekkja ekki þessa sögu,“ sagði O’Rourke og kvað þörf á að segja hana, læra og deila.

Guardian segir O’Rourke, sem hefur verið tíðrætt um írskar rætur sínar, hins vegar aldrei hafa deilt því opinberlega að forfeður hans, og eiginkonu hans Amy, hafi verið þrælahaldarar. Kvaðst hann í viðtali við Guardian ekki hafa vitað af þessum tengslum fyrr en blaðið ræddi við hann. Upplýsingarnar er hins vegar að finna á vefnum Ancestry.com þar sem fram kemur að önnur amma O‘Rourke var frá Suðurríkjum Bandaríkjanna og var langafi hennar Andrew Jasper á lista yfir þrælahaldara, en hann hélt tvær konur sem þræla er svo voru seldar burt sem hluti af dánarbúinu er hann lést.

Kvaðst  O’Rourke haf komist við er hann frétti af þessu. „Amy og ég settumst niður og ræddum þetta,“ sagði hann og bætti við að hann og börn hans nytu þannig í raun ágóðans af þrælahaldi.

„Ég veit ekki hvort ég á orð til að lýsa þessu,“ sagði hann. Þetta hefði mikil áhrif á sig sagði O'Rourke og bætti við að hann hefði áhuga á að reyna að hafa uppi af afkomendum þrælanna tveggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina