Friðarákall köngulóarmannsins í Hong Kong

Franskur ofurhugi sem gengur undir nafninu köngulóarmaðurinn kleif í dag einn af skýjakljúfum Hong Kong og kom fyrir risaborða þar sem hvatt er til friðar í borginni, þar sem mótmæli hafa nú staðið yfir í einar tíu vikur.

Alain Robert, Frakki á sextugsaldri sem þekktur er fyrir að klífa háhýsi víða um heim, opnaði borðann sem bar mynd af handabandi og fánum Hong Kong og Kína.

Sagði Robert gjörning sinn vera „knýjandi ákall um frið“.

„Mögulega mun það sem ég er að gera lækka aðeins hitann í mönnum og ef til vill kalla fram einhver bros. Það er að minnsta kosti von mín,“ sagði í yfirlýsingu Roberts, sem kvaðst vera að hvetja stjórnvöld í Hong Kong og almenning til að ræða saman.

Líkt og í mörgum fyrri klifurævintýrum sínum notaði Roberts hvorki klifurlínur né festiólar er hann kleif 68 hæða háa Cheung Kong Center-bygginguna.

Uppátæki hans fékk misjafnar viðtökur á samfélagsmiðlum. „Viltu raunverulega taka í höndina á slátrurum og einræðisherrum?“ spurði kínverski andófslistamaðurinn Badiucao, sem búsettur er í Ástralíu, á Twitter.

Cheung Kong Center er í eigu milljarðamæringsins Li Ka Shing, eins ríkasta manns Asíu. Hann keypti í dag fjölda auglýsinga í dagböðum Hong Kong þar sem hann hvatti til að þess að endir yrði bundinn á ofbeldi síðustu vikna.

BBC segir Roberts jafnan hvorki óska leyfis fyrir klifur sitt né láti vita af því fyrir fram. Hann hefur nokkrum sinnum áður klifið háhýsi í Hong Kong, m.a. Cheung Kong Center og bönnuðu dómstólar í Hong Kong honum raunar í fyrra að klífa fleiri byggingar í borginni. Ekki liggur fyrir hvort það bann er fallið úr gildi, en fyrr á þessu ári var hann handtekinn á Filippseyjum eftir að hafa klifið 47 hæða turn í höfuðborginni Manila.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert