Tortryggnir á opinberu rannsóknina

Fangelsið í New York þar sem Jeffrey Epstein fannst látinn …
Fangelsið í New York þar sem Jeffrey Epstein fannst látinn fyrir viku. AFP

Lögmenn bandaríska auðkýfingsins Jeffreys Epstein hafa í hyggju að framkvæma eigin rannsókn á því með hvaða hætti andlát hans bar að. Epstein, sem ákærður hafði verið fyrir gróf kynferðisbrot meðal annars gegn ungum stúlkum, fannst látinn í fangaklefa sínum í New York í Bandaríkjunum fyrir viku. Úrskurðað var í gær að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en sögusagnir hafa verið á kreiki um að hann hafi verið myrtur.

Jeffrey Epstein.
Jeffrey Epstein. AFP

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að lögmenn Epsteins séu ekki sannfærðir um að rétt hafi verið staðið að opinberri rannsókn á dauða hans. Yfirvöld segja að staðið hafi verið í alla staði faglega að rannsókninni. Lögmennirnir hafa meðal annars óskað eftir heimild til þess að skoða myndskeið úr eftirlitsmyndavélum í fangelsinu. Þeir segja ljóst að ekki hafi verið staðið rétt að fangelsisvistun hans.

Fréttir herma að fangaverðir sem áttu að sjá um að fylgjast með Epstein hafi sofnað á verðinum. Ekki hafi verið rétt staðið að eftirliti með honum. Ekki síst þar sem vitað var að hann gæti hugsanlega svipt sig lífi en talið er að hann hafi gert misheppnaða tilraun til þess fyrir nokkrum vikum síðan Bandaríska alríkislögreglan hefur til rannsóknar hvernig það hafi getað gerst að Epstein hafi getað svipt sig lífi í fengelsinu.

mbl.is