Þjófar sæta færis á ströndinni

Strandferðir og sjósund er vinsæl afþreying þegar heitt er í …
Strandferðir og sjósund er vinsæl afþreying þegar heitt er í veðri. AFP

Lögreglan í Barcelona hefur þurft að afhenda yfir 100 strandgestum neyðarpakkningar með fatnaði það sem af er sumri. Ástæðan er sú að þegar fólkið hefur snúið á land eftir sundsprett í sjónum hefur verið búið að stela fötum viðkomandi af ströndinni.

Í pakkningunni er stuttermabolur skreyttur merki Barcelona, stuttbuxur, sandalar og lestarmiði. Neyðarpakkningin hefur vakið mikla ánægju meðal þeirra sem hafa þurft að leita á náðir lögreglunnar eftir að fatnaði þeirra hefur verið stolið á ströndinni, ekki síst gesta á nektarströndunum Sant Sebastià og Mar Bella, að því er segir í frétt Guardian.

Í fréttinni kemur fram að lögreglan hafi þannig aðstoðað 174 strandgesti frá því baðstrendur borgarinnar voru opnaðar 27. maí.

Þjófar eru ekki það eina sem gestir kvarta yfir á ströndum Barcelona heldur einnig stöðugt áreiti frá sölumönnum. Segir fólk að vart líði mínúta á milli þess sem einhver reynir að selja þér bjór, vatn, handklæði, eða klúta. Eins hvort þú viljir ekki fá nudd eða henna-húðflúr. Í sumar hefur lögreglan gefið út yfir níu þúsund kærur á hendur einstaklinga sem eru að selja hressingu á ströndinni án þess að hafa til þess leyfi.

mbl.is