Gleypti trúlofunarhringinn í svefni

Hringurinn var með 2.4 karata demanti og töldu læknar óráðlegt …
Hringurinn var með 2.4 karata demanti og töldu læknar óráðlegt að láta hann halda áfram för sinni í gengum meltingarveginn. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bandarísk kona þurfti á dögunum að gangast undir skurðaðgerð eftir að hún gleypti trúlofunarhring sinn í svefni. Konan, Jenna Evans, sagði að sig hefði dreymt að hún væri með Bobby unnusta sínum um borð í hraðlest og hún hefði þar neyðst til að gleypa trúlofunarhringinn til að verja hann fyrir „vondum mönnum“. 

BBC segir að þegar Evans vaknaði svo á heimili sínu í Kaliforníu hafi hún áttað sig á að þó atvikið hafi vissulega verið draumur þá væri hringurinn, sem var með 2,4 karata demanti, engu að síður horfinn.

Evans vissi nákvæmlega hvað hefði gerst og segist hafa vakið Bobby og útskýrt málið fyrir honum. Þau héldu því næst á sjúkrahús þar sem hún útskýrði fyrir læknum hvað hefði gerst. Hún segir það þó ekki hafa verið auðvelt því hún hafi hlegið svo mikið.

Því næst var röntgenmynd tekin sem staðfesti að hringurinn var í maga Evans og töldu læknar ekki viturlegt að láta hringinn halda áfram för sinni í gegnum meltingarveginn.

Áður en hringurinn var fjarlægður þurfti hún þó að undirrita hin ýmsu eyðublöð, færi svo að aðgerðin kostaði hana lífið. „Þá grét ég mikið,“ segir hún. „Ég hefði orðið brjáluð ef ég hefði drepist. Ég beið í langan tíma eftir þessum fjandans trúlofunarhring og ég ætla að giftast Bobby Howell,“ sagði hún í samtali við ABC-sjónvarpsstöðina.

Aðgerðin heppnaðist þó vel og segist Evans hafa verið virkilega hamingjusöm. Hún er þó ekki viss um að hún geti litið trúlofunarhringinn sömu augum og áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert