„Andrés prins var ofbeldismaður“

Virginia Giuffre ítrekaði ásakanir sínar í garð Andrésar prins í …
Virginia Giuffre ítrekaði ásakanir sínar í garð Andrésar prins í viðtali á NBC í gærkvöldi. Skjáskot/NBC

Viginia Giuffre, ein kvennanna sem hafa ásakað Jeffrey Epstein um kynferðisofbeldi, lýsir Andrési prinsi sem ofbeldismanni og virkum geranda í misnotkuninni sem átti sér stað þegar hún var 17 ára. 

Milljarðamæringurinn Jeffrey Ep­stein, sem tal­inn er hafa svipt sig lífi í fang­elsi á Man­hatt­an 10. ág­úst, hafði lýst sig sak­laus­an af ákær­um um man­sal á stúlk­um niður í 14 ára ald­ur.

NBC hefur rætt við sex konur sem hafa stigið fram og sakað Epstein um kynferðisofbeldi. Giuffre ítrekaði ásakanir sínar í garð Andrésar í viðtali á NBC í gærkvöldi. Þar sagði hún Epstein hafa þrýst á hana til að hafa mök við nokkra valdamikla vini hans, þar á meðal Andrés prins. Áður hafði hún greint frá því að Epstein hefði sjálfur fengið hana til að eiga mök við sig og vini sína gegn greiðslu. 

„Þú munt hitta prins í dag“

Ghislaine Maxwell, dóttir fjölmiðlamannsins og auðjöfursins Roberts Maxwell, réði Guiffre á sínum tíma til starfa fyrir Epstein. Ghislaine segist ekki hafa gert neitt rangt í starfi sínu fyrir Epstein. 

Giuffre lýsir því þegar Ghislaine vakti hana einn morgun í London. „Fyrsta skiptið í London, ég var svo ung. Ghislaine vakti mig um morguninn og sagði: „Þú munt hitta prins í dag.“ Ég vissi ekki þá að það ætti að selja mig til prinsins.“ 

Ghislaine fylgdi Guiffre á skemmtistað þar sem prinsinn gaf henni áfengi á sérstöku VIP-svæði. Hann bauð henni upp í dans og síðar fóru þau öll þrjú á heimili Ghislaine, sem sagði þá við Guiffre: „Ég vil að þú komir fram við hann eins og þú kemur fram við Epstein.“ Guiffre segir að ofbeldið hafi byrjað á baðherberginu og síðan færst yfir í svefnherbergið. 

Andrés prins hefur neitað allri sök og styður Buckingham framburð hans. Í tilkynningu frá konungshöllinni í ágúst neitar konungsfjölskyldan öll­um ásök­un­um á hend­ur Andrési. Guiffre býst ekki við því að hann muni viðurkenna misnotkunina. „Hann neitar að þetta hafi átt sér stað og hann mun halda áfram að neita því, en hann veit sannleikann og ég veit sannleikann,“ sagði hún.

mbl.is