Neydd til kynmaka

Fyrir utan réttarhöldin í gær í New York.
Fyrir utan réttarhöldin í gær í New York. AFP

Kona sem sakar Jeffrey Epstein um kynferðislegt ofbeldi segir að hún hafi verið neydd til þess að hafa mök við Andrew prins þegar hún var 17 ára gömul. Hún hvetur Andrew til þess að segja sannleikann en hann hefur harðlega neitað öllum ásökunum í tengslum við bandaríska níðinginn Jeffrey Epstein.

Virginia Giuffre sagði við fréttamenn eftir réttarhöldin í gær að prinsinn viti fullvel hvað hann hafi gert. Epstein framdi sjálfsvíg í fangaklefa fyrr í mánuðinum en þar beið hann réttarhalda vegna kynferðisbrota af ýmsu tagi. 15 stefnendum var gefinn kostur á að tjá sig við héraðsdóm í New York-borg í gær en réttarhöldin í gær voru þau síðustu í sakamálinu gegn Epstein þar sem málinu lauk með dauða hans. Saksóknarar segja að ásakanir gegn öðrum verði skoðaðar áfram og ekki útilokað að höfðað verði mál gegn samverkamönnum hans. 

Giuffre sakar Epstein um að hafa haldið henni sem kynlífsþræl. Við réttarhöldin í gær sagði hún að þegar hún var 15 ára gömul hafi hún starfað hjá Donald Trump í Flórída, í Mar-a-Lago. Þar hafi breska yfirstéttarkonan Ghislaine Maxwell komið til hennar og beðið hana um að nudda Epstein. Ghislaine Maxwell er dóttir fjölmiðlabarónsins Robert Maxwell en margar kvennanna saka hana um að hafa starfað fyrir Epstein. Hún var unnusta hans um tíma. Maxwell neitar öllum ásökunum á hendur sér. Giuffre segir að hún hafi í þrígang verið neydd til maka við Andrew prins.

Ein kvennanna sem kom fyrir réttinn í gær, Chauntae Davies, lýsti því hvernig hún hafi legið á sjúkrahúsi í tvær vikur eftir að hafa verið nauðgað af Epstein. Allt byrjaði það með því að hún var ráðin til þess að nudda auðjöfurinn. Hún lýsti því í réttinum hvernig hann niðurlægði ungar stúlkur ítrekað og misnotaði. 

Önnur lýsti því hvernig martraðirnar sæki stöðugt á hana eftir að hafa verið nauðgað af Epstein.

„Ég var þræll hans. Ég var hjálparvana og full skammar,“ sagði hún og lýsti því hvernig Epstein hafi hótað að drepa hana ef hún væri ekki hrein mey.

mbl.is