Kínverjar refsa NBA vegna tísts um Hong Kong

James Harden, stjörnuleikmaður Houston Rockets, á blaðamannafundi í Tókýó á …
James Harden, stjörnuleikmaður Houston Rockets, á blaðamannafundi í Tókýó á mánudag. AFP

Kínverska ríkissjónvarpsstöðin CCTV hefur ákveðið að sýna ekki æfingaleiki NBA-liða sem fara fram í vikunni, vegna deilu um tíst sem Daryl Morey, framkvæmdastjóri NBA-liðs Houston Rockets sendi frá sér síðasta föstudag. Þar lýsti Morey yfir stuðningi við mótmælendur í Hong Kong en í færslu hans, sem var fljótlega fjarlægð, sagði: „Berjist fyrir frelsi, standið með Hong Kong.“

Þetta tíst lagðist ekki vel í kínverska stuðningsmenn og yfirvöld. Lund Kínverja súrnaði svo eflaust enn frekar í gærkvöldi, þegar Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar, lýsti því yfir að NBA styddi rétt Morey og annarra til þess að nýta tjáningarfrelsi sitt.

„Við teljum að öll ummæli sem vegi að fullveldi landsins og félagslegum stöðugleika falli ekki innan ramma tjáningarfrelsisins,“ segir í yfirlýsingu CCTV frá því í dag um að æfingaleikir NBA-liðanna á undirbúningstímabilinu yrðu ekki sýndir. Leikir Houston Rockets í vetur verða heldur ekki sýndir og kínverskir styrktaraðilar liðsins hafa sett samstarfssamninga sína á ís vegna málsins, samkvæmt frétt New York Times.

Rockets eru eitt þeirra liða sem nú eru stödd í Asíu í æfingaferð og baðst James Harden, skærasta stjarna liðsins, afsökunar á blaðamannafundi í Japan í gær. „Við elskum Kína,“ sagði Harden.


Fjölmargar kínverskar stjörnur, þeirra á meðal leikarar og tónlistarfólk, hafa gefið það út að þær hyggist sniðganga þá æfingaleiki bandarísku körfuboltaliðanna sem leiknir verða á kínverskri grundu á næstunni. Samkvæmt frétt AFP var þetta heitasta umræðuefnið á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo í morgun og hafði færsla um körfuboltasniðgöngu stjarnanna fengið yfir 350 milljónir flettinga.

NBA-deildin sökuð um að lúffa fyrir Kommúnistaflokknum

NBA er af þessum sökum á milli steins og sleggju, en deildin sætir bæði gagnrýni frá Kína, risastórum neytendamarkaði sem orðinn er afar fjárhagslega mikilvægur fyrir deildina og einnig á heimavelli í Bandaríkjunum, þar sem stjórnmálamenn hafa sakað deildina um að skríða fyrir Kínverjum vegna þeirra miklu markaðslegu hagsmuna sem eru undir.

Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar.
Adam Silver, framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar. AFP

Fyrstu yfirlýsingar deildarinnar vegna málsins voru á þá leið að gera sem minnst úr því. Deildin sagðist „harma“ að margir kínverskir stuðningsmenn væru móðgaðir vegna ummæla Morey og kom því skýrt á framfæri að tístið endurspeglaði ekki skoðun Houston Rockets né NBA-deildarinnar. Kínversk útgáfa yfirlýsingarinnar gekk enn lengra, en þar sagði að deildin væri „afar vonsvikin með þessi óviðeigandi ummæli.“

„Við berum gríðarmikla virðingu fyrir sögu og menningu Kína og vonum að íþróttir og NBA geti verið sameinandi afl til þess að brúa menningarmun og sameina fólk,“ sagði í yfirlýsingu deildarinnar – sem stjórnmálamenn úr báðum flokkum vestanhafs gagnrýndu harðlega.

Ted Cruz öldungadeildarþingmaður repúblikana sagði að hann hefði verið stoltur er hann sá Morey gagnrýna meðferð mótmælenda í Hong Kong. Nú væri NBA-deildin hins vegar að „hörfa með skömm“ til þess að vernda fjárhagslega hagsmuni sína.

Beto O‘Rourke, forsetaframbjóðandi demókrata og fyrrverandi fulltrúadeildarþingmaður, sagði að það eina sem NBA ætti að biðjast afsökunar á væri óforskömmuð forgangsröðun hagnaðar fram yfir mannréttindi. „Þvílíkt hneyksli,“ sagði O‘Rourke.


„Stærsta lexían“

Kínverska dagblaðið Global Times, sem þekkt er fyrir að koma á framfæri viðhorfum kínverska Kommúnistaflokksins í ritstjórnargreinum sínum, hefur varað við því að ef erlend fyrirtæki ræði um mannréttindamál og önnur viðkvæm efni muni það kosta þau markaðsaðgengi.

„Vandamálið er að frelsi Morey er á kostnað gríðarlegra viðskiptahagsmuna Rockets, sem liðið vill ekki gefa upp á bátinn. Það er þversögn sem Bandaríkjamennirnir eru að glíma við,“ sagði í leiðara blaðsins.

„Stærsta lexían sem hægt er að draga af málinu er sú að aðilar sem meta viðskiptahagsmuni sína mikils verða að láta félagsmenn sína tala af varfærni,“ sagði einnig í leiðaranum.

Daryl Morey, framkvæmdastjóri Houston Rockets. Tíst hans til stuðnings íbúum …
Daryl Morey, framkvæmdastjóri Houston Rockets. Tíst hans til stuðnings íbúum í Hong Kong hefur valdið miklum usla. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert