Reyndu að svíkja út tryggingafé með frosnu villisvíni

AFP

Lögreglan á Ítalíu hefur til rannsóknar nokkuð sérstakt mál þar sem tveir karlmenn eru grunaðir um að hafa sett umferðarslys á svið til þess að svíkja út tryggingafé.

Mennirnir tveir tilkynntu um umferðarslys og héldu því fram að þeir hefðu ekið á villisvín á eyjunni Sardiníu. Við rannsókn málsins kom hins vegar ekki aðeins í ljós að svínið hafði verið skorið á háls heldur reyndust innyfli þess frosin við skoðun dýralæknis.

Lögreglan telur að mennirnir tveir hafi drepið svínið og geymt það í frysti áður en þeir komu því fyrir á meintum slysstað. Mennirnir eiga yfir höfði sér háar sektir og að minnsta kosti eins árs fangelsi að sögn lögreglunnar.

mbl.is