Brittu Nielsen-málið fyrir dóm

Danska lögreglan.
Danska lögreglan. Vefur lögreglunnar

Réttarhöld í einu þekktasta sakamáli Danmerkur á síðari árum, fjársvikamáli Brittu Nielsen, hefjast í héraðsdómi Kaupmannahafnar á fimmtudaginn. Nielsen er ákærð fyrir að hafa dregið sér 117 milljónir danskra króna, jafnvirði um 2,2 milljarða íslenskra króna, í 298 millifærslum  hjá dönsku félagsþjónustunni þar sem hún starfaði og þurfti danska lögreglan að lýsa eftir henni á alþjóðavísu uns hún fannst loks í Suður-Afríku.

Lögmaður Nielsen, Nima Nabipour, segir í samtali við danska dagblaðið Politiken að skjólstæðingur hans hlakki til að segja sína hlið á málum. „Hún er auðvitað spennt og svo sér hún fram á að útskýra hvernig hún hafnaði í þessum aðstæðum,“ segir Nabipour.

Börnin áttu glæsibíla

Nielsen hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan í nóvember í fyrra og var ákærð í maí síðastliðnum. Ákærurnar á hendur henni hljóða upp á umfangsmikil fjársvik, misnotkun á embætti og skjalafals í tengslum við starf sitt hjá félagsþjónustunni. Brotin eru talin hafa verið framin á árunum 1997 til 2018. Við rannsókn málsins voru ýmis verðmæti gerð upptæk meðal ættingja hennar, m.a. dýrar bifreiðar af tegundunum Range Rover og Mercedes Benz, íbúð í bænum Hvidovre og lausafé. Sonur hennar og dætur hafa einnig verið ákærð í málinu.

Málið komst upp þegar endurskoðandi hjá sveitarfélaginu í Hróarskeldu sá að fé vantaði á reikning sveitarfélagsins. Þegar málið var skoðað nánar sást að um fjölmargar áþekkar færslur var að ræða og þannig bárust böndin fljótt að Brittu Nielsen.

mbl.is