Óheimilt að hafna fjölskyldusameiningu

Frá Liechtenstein.
Frá Liechtenstein. mynd/Thinkstock

Undanþáguákvæði standa ekki í vegi þess að aðstandandi EES-ríkisborgara sem búsettur er í Liecthenstein öðlist dvalarleyfi. Þetta er niðurstaða EFTA-dómstólsins. Þetta þýðir að aðlögunarákvæði stendur ekki í vegi fyrir réttindum ríkisborgara EES-ríkis.

Með dóminum, sem kveðinn var upp í dag, veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit við spurningum sem bárust frá Stjórnsýsludómstóli furstadæmisins Liechtenstein (Verwaltungsgerichtshof des Fürstentums Liechtenstein).

Í niðurstöðu dómstólsins kemur fram að atvinnugreinabundin aðlögunarákvæði í viðaukum VI og VIII við EES-samninginn komi ekki í veg fyrir rétt aðstandenda ríkisborgara EES-ríkis, sem hefur hlotið dvalarleyfi og er búsettur í Liechtenstein, til þess að fylgja eða koma til ríkisborgarans.

Sú staðreynd að viðkomandi dvalarleyfi var ekki veitt á grundvelli þess kerfis sem byggir á aðlögunarákvæðunum hefur ekki áhrif á þá niðurstöðu.

Málið varðar umsókn D, sem er þýskur ríkisborgari, um leyfi fyrir dóttur hennar, E, til þess að dveljast hjá henni í Liechtenstein á grundvelli reglna um sameiningu fjölskyldna. D giftist árið 2017 tyrkneskum ríkisborgara, sem búsettur er í Liechtenstein og hefur hlotið dvalarleyfi þar.

Umsókn D var hafnað af hálfu yfirvalda í Liechtenstein á þeim grundvelli að hún hefði hlotið dvalarleyfi á grundvelli reglna í landsrétti í tengslum við búsetu eiginmanns hennar í Liechtenstein.

Liechtenstein er, vegna landfræðilegrar stöðu ríkisins, heimilt á grundvelli aðlögunarákvæðanna að viðhalda leyfiskerfi og fjöldatakmörkunum í tengslum við veitingu dvalar- og búsetuleyfa þegar kemur að ríkisborgurum EES-ríkjanna.

„Óumdeilt er að D er ríkisborgari EES-ríkis og fullnægir skilyrðum a-liðar 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2004/38/EB1 sem launþegi. Með hliðsjón af þessu sneri málið fyrir dómstólnum að því hvort að aðlögunarákvæðin leiddu til annarrar niðurstöðu,“ segir í fréttatilkynningu.

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, voru stofnuð árið 1960.
Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, voru stofnuð árið 1960.

Dómarar við EFTA-dómstólinn taka fram að þrátt fyrir að Liechtenstein væri ekki á grundvelli EES-samningsins skylt að veita ríkisborgara EES-ríkis dvalarleyfi utan þess kerfis sem byggir á aðlögunarákvæðunum, yrðu aðlögunarákvæðin ekki túlkuð á þann hátt að þau stæðu í vegi fyrir réttindum ríkisborgara EES-ríkis samkvæmt EES-samningnum, sem Liechtenstein hefði veitt dvalarleyfi á grundvelli annarra reglna en aðlögunarákvæðanna og hefði búsetu þar.

Dómstóllinn taldi því að aðlögunarákvæðin í viðaukum VI og VIII við EES-samninginn komi ekki í veg fyrir rétt aðstandenda ríkisborgara EES-ríkis, sem hlotið hefur dvalarleyfi og hefur búsetu í Liechtenstein, til þess að fylgja viðkomandi, eða koma til hans, á grundvelli d-liðar 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar.

mbl.is