Svör prinsins vekja furðu

Andrés Bretaprins og hertogi af Jórvík.
Andrés Bretaprins og hertogi af Jórvík. AFP

Andrés Bretaprins hefur verið sakaður um dómgreindarleysi og skort á samúð eftir að viðtal við hann birtist bresku þjóðinni á BBC á laugardagskvöld. Þar þvertók hann fyrir að hafa átt kynmök við unglingsstúlku, sem fullyrt hefur að bandaríski barnaníðingurinn Jeffrey Epstein hafi neytt sig til þess.

Mesta furðu vöktu þau svör prinsins að hann hefði verið á pítsustað með dóttur sinni daginn sem atvikið á að hafa átt sér stað, í mars árið 2001, og að hann gæti ekki svitnað – en í vitnisburði konunnar segir að hann hafi verið blautur af svita.

Þá sagðist hann ef til vill hafa gerst sekur um að vera „of heiðvirður“, og þess vegna haldið vinskap sínum áfram við Epstein þrátt fyrir að fallið hefði dómur yfir honum vegna kynferðisafbrota.

Þetta er í fyrsta sinn sem prinsinn hefur svarað spurningum fjölmiðla um ásakanir stúlkunnar, Virginiu Roberts, sem nú ber fjölskyldunafnið Giuffre.

Giuffre hefur haldið því fram að hún hafi verið neydd til kynmaka með prinsinum í þremur mismunandi tilvikum. Í London árið 2001 þegar hún var 17 ára, í New York og svo á einkaeyju Epsteins í Karíbahafinu.

Aldrei séð neitt jafn hörmulegt

Konungsfjölskyldan virðist hafa freistast til að reyna að setja punkt aftan við langa sögu þessa máls með viðtalinu fordæmalausa. Þess í stað þykir Andrés hafa varpað kastljósinu enn frekar á sjálfan sig og voru umfjallanir breskra dagblaða í gær afar neikvæðar í hans garð. Ímyndarráðgjafinn Mark Borkowski segir í samtali við fréttastofu AFP að viðtalið hafi verið „eins og að horfa á mann í kviksyndi“ og að hann hafi aldrei séð neitt jafn hörmulegt.

Undanfarnar vikur hafa skiptar skoðanir verið innan hallarveggjanna um hvort rétt væri fyrir prinsinn að koma fram í sjónvarpsviðtali. Í ljós kom í gær að almannatengslaráðgjafi Andrésar sagði af sér fyrir tveimur vikum, eftir að hafa varað hann við að samþykkja viðtalið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »