Fleiri fyrirtæki yfirgefa prinsinn

Andrés Bretaprins.
Andrés Bretaprins. AFP

Alþjóðabankinn Standard Chartered hefur bæst í hóp þeirra fyrirtækja sem hyggjast draga sig út úr frumkvöðlaverkefni Andrésar Bretaprins. Áður hafði endurskoðunarfyrirtækið KPMG gert slíkt hið sama og alþjóðafyrirtækið Aon, sem m.a. býður upp á tryggingar, hefur farið fram á að merki þess verði fjarlægt af vefsíðu verkefnis prinsins sem heitir Pitch@Palace.

Þá sendu nemendur við háskólann í Huddersfield frá sér yfirlýsingu um helgina þar sem þeir fóru fram á að Andrés yrði sviptur heiðursdoktorsnafnbót sem honum hafði verið veitt við skólann.

Greint er frá þessu á vefsíðu breska dagblaðsins The Guardian og þar segir einnig að fleiri fyrirtæki og samtök séu að íhuga tengsl sín og stuðning við málefni prinsins.

Sagði prinsinn vera „fullkomna hneisu“

Öll spjót standa á hinum 59 ára gamla prinsi eftir að hann varði vinskap sinn við barnaníðinginn Jeffrey Epstein í viðtali við bresku sjónvarpskonuna Emily Maitlis í þættinum Newsnight í breska ríkissjónvarpinu, BBC, í fyrradag.

Í Good Morning Britain, sem er morgunþáttur bresku sjónvarpsstöðvarinnar ITV, sagði Chuka Umunna, fyrrverandi þingmaður breska Verkamannaflokksins, prinsinn vera „fullkomna hneisu“. Hann sagði að prinsinn hefði dregið konungdæmið niður á lágt plan. Robert Buckland, dómsmálaráðherra Bretlands, sagði í samtali við bresku útvarpsstöðina BBC4 í dag að það væri ekki viðeigandi fyrir hann að tjá sig um málið.

mbl.is