Norðmaður tengdur danska hryðjuverkamálinu

Norðmaður á þrítugsaldri er talinn hafa tengsl við hryðjuverkahóp sem …
Norðmaður á þrítugsaldri er talinn hafa tengsl við hryðjuverkahóp sem handtekinn var í Danmörku í gær. Norska öryggislögreglan PST staðfestir að henni sé kunnugt um Norðmann sem hafi tengsl við Danmerkurhópinn en hún telji þó ekki ástæðu til að hækka viðbúnaðarstig í Noregi vegna málsins. Ljósmynd/Úr einkasafni

„PST [norsku öryggislögreglunni] er kunnugt um hver þessi maður í Noregi er og við vitum af tengslum hans við Danmörku. Þetta hefur þó ekki áhrif á viðbúnaðarstig PST í Noregi.“ Þetta segir Trond Hugubakken, upplýsingafulltrúi PST, við norska ríkisútvarpið NRK í dag, spurður um Norðmann á þrítugsaldri sem átt hefur töluverð netsamskipti við hluta hópsins sem handtekinn var í Danmörku í gær grunaður um að leggja á ráðin um hryðjuverk.

PST handtók Norðmanninn í september samkvæmt upplýsingum NRK og er hann grunaður um að hafa sammælst við fleiri menn um að fremja hryðjuverk, það sem kallast terrorforbund á norsku. Hugubakken neitar þó að staðfesta nema hluta af meintri vitneskju NRK. Eins og segir í upphafi fréttarinnar segir hann PST þekkja til mannsins en segir öryggislögregluna ekki telja ástæðu til að hækka viðbúnaðarstig í Noregi vegna tengsla hans við hina handteknu í Danmörku.

„Okkur kemur það engan veginn á óvart að hópar hryðjuverkamanna hafi tengsl landa á milli. Slíkt höfum við séð í ótal hryðjuverkamálum,“ segir Hugubakken.

Danska lögreglan hafði uppi mikinn viðbúnað í gær, meðal annars …
Danska lögreglan hafði uppi mikinn viðbúnað í gær, meðal annars í Álaborg þar sem þessi mynd var tekin við húsleit í tengslum við grun um hryðjuverkaáætlanir. Fjöldi manns var handtekinn vegna málsins. AFP

„Mun þetta [tengslin] hafa afleiðingar fyrir norska manninn?“ spyr fréttamaður NRK. „Það ætla ég ekki að tjá mig um,“ svarar upplýsingafulltrúinn.

Norðmaðurinn er samkvæmt upplýsingum NRK frá Telemark og verjandi hans er norski lögmaðurinn Brynjar Meling, fyrrverandi verjandi íraska Kúrdans Najumuddin Faraj Ahmad sem flestir Norðmenn þekkja betur sem mulla Krekar eftir margra ára fjölmiðlaumfjöllun í Noregi en Krekar hlaut þrjá dóma í Noregi, meðal annars fyrir að leggja á ráðin um hryðjuverk og hóta Ernu Solberg forsætisráðherra lífláti. Hann var að lokum framseldur til Ítalíu þar sem hann hlaut tólf ára dóm í sumar fyrir skipulagningu hryðjuverka.

Fundu „móður djöfulsins“

Meling segir norska skjólstæðinginn ekki játa tengsl við málið í Danmörku. „Ég veit ekkert hverja hann hefur haft samband við í Danmörku, ég hef ekkert heyrt um þetta mál nema frá NRK. Sem norskum verjanda er mér nauðugur einn kostur að halda mig við þær upplýsingar sem ég fæ frá lögreglu í Noregi,“ segir hann við NRK.

Í sjónvarpsfréttum ríkisútvarpsins í kvöld, fimmtudagskvöld, kom það fram að danska lögreglan hefði fundið töluvert magn af sprengiefninu TATP, þrísetónþríperoxíði, í fórum hinna handteknu í Danmörku, efni sem einnig hefur borið hið mun þjálla nafn „móðir djöfulsins“ (e. Mother of Satan), hefur um það bil sama styrk og TNT og var meðal annars notað við hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars 2016 sem Ibrahim El Bakraoui framdi við fimmta mann.

NRK

VG

Dagsavisen

Nettavisen

mbl.is