Sprengjuárásir daglegt brauð í Svíþjóð

Lögregla að störfum á svæði þar sem sprengja skemmdi heimahús …
Lögregla að störfum á svæði þar sem sprengja skemmdi heimahús í miðbæ Stokkhólms þann 13. janúar síðastliðinn. AFP

Sprengingar í úthverfum Svíþjóðar verða sífellt algengari og eru dæmi um að þrjár sprengjur hafi sprungið á einum sólarhring í annars öruggu og vel skipulögðu úthverfi sem millistéttarfólk býr helst í. Guardian greinir frá þessu.

Samkvæmt gögnum sem sænsk öryggismálayfirvöld sendu frá sér fyrr í janúar voru 250 glæpir sem tengdust sprengjum skráðir í Svíþjóð í fyrra. Það er 60% meira en árið 2018. 

Skotárásir voru einnig óvenjumargar en 320 voru skráðar í fyrra. Í 41 af skotárásunum varð manntjón.

Óeðlilegt ástand í friðsælu landi

Síðastliðinn þriðjudag sprungu tvær sprengjur í tveimur blokkum á úthverfi í Stokkhólmi. Síðasta sprenging í Malmö átti sér stað 10. janúar síðastliðinn. 

Sænsk yfirvöld segja að málið sé alvarlegt og ástandið sé óeðlilegt í landi þar sem ekkert stríð geisar. Fólk hefur síendurtekið þurft að flýja heimili sitt um miðjar nætur vegna sprengjuárása. 

Hrina skot- og sprengjuárása hefur aukið vinsældir popúlistaflokksins Svíþjóðardemókrata og minnkað stuðning við ríkisstjórnina, sem sósíaldemókratar leiða.

mbl.is