Keyrði um með beinagrind í farþegasætinu

Beinagrindinni svipar óhugnanlega mikið til raunverulegrar beinagrindar.
Beinagrindinni svipar óhugnanlega mikið til raunverulegrar beinagrindar. Ljósmynd/Lögreglan í Arizona

Karlmaður í Arizona í Bandaríkjunum gerði á dögunum misheppnaða tilraun til þess að láta eins og farþegi væri með honum í bílnum. Farþeginn reyndist vera gervi-beinagrind og ætlaði maðurinn með þessu að nýta sér akrein sem einungis bílar sem tveir eða fleiri sitja í mega keyra á. BBC greinir frá þessu.

Maðurinn er 62 ára gamall en lögreglan stöðvaði hann þegar lögreglumaður tók eftir beinagrindinni, sem var með hatt á höfði og bundin við farþegasætið með gulu reipi. Maðurinn fékk sekt vegna þessa.

Lögregluyfirvöld tjáðu fréttastofu AP að um 7.000 ökumenn í Arizona væru stöðvaðir árlega fyrir að brjóta reglur um akreinar sem leyfa einungis bíla með ökumanni og einum eða fleiri farþegum. 

Annar dulbjó gínu

Í færslu á Twitter varaði lögregluembætti Arizona aðra við að beita sömu aðferðum. Færslan birtist ásamt mynd af beinagrindinni.

Maðurinn sem hér um ræðir er ekki sá fyrsti sem hefur gengið langt til þess að komast fram hjá reglum um að ökumenn sem keyri einir fái ekki að nota ákveðnar akreinar. 

Í apríl síðastliðnum lét annar maður eins og farþegi væri með honum í bílnum með því að reyna að láta gínu líta út eins og manneskju. Hann hafði þá sett á hana derhúfu og sólgleraugu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert