Lokun landamæranna mesta sjokkið

Dagný segir mikinn mun á þeim fjölda sem notar nú …
Dagný segir mikinn mun á þeim fjölda sem notar nú almenningssamgöngum í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Aðsend

Dagný Engilbertsdóttir býr ásamt manni sínum í Kaupamannahöfn þar sem þau starfa bæði. Þau hafa unnið heiman frá sér síðustu vikuna eftir að tilmæli komu frá dönskum stjórnvöldum um að vinnustaðir gerðu fólki kleift að vinna heima hjá sér ef mögulegt væri, en á sama tíma var öllum skólum lokað. Síðan þá hefur landamærum Danmerkur verið lokað og strangt samkomubann sett á, en ekki mega fleiri en tíu koma saman. Kaffihúsum, veitingastöðum og verslunarmiðstöðvum hefur einnig verið lokað. Allt er þetta gert í þeim tilgangi að reyna að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

„Fólk var byrjað að ræða að það ætti von á þessu. Þetta síðasta skref var minnsta sjokkið, en maður skilur að þetta hafi verið gert miðað við hvað skrefin á undan voru drastísk. Og miðað við hvað það voru margir enn þá úti á götum á fjölförnum stöðum. Að þess vegna hafi verið gripið til þessara aðgerða,“ segir Dagný í samtali við mbl.is, en blaðamaður náði í hana á milli símafunda í vinnunni sem eru ansi margir yfir daginn í heimavinnunni.

Dagný og maðurinn hennar vinna nú bæði heiman frá sér.
Dagný og maðurinn hennar vinna nú bæði heiman frá sér. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir mesta sjokkið hafa verið þegar landamærum Danmerkur var lokað. „Fyrir þá sem eru búnir að vera heima og hlýða fyrirmælum eins og við þá er þetta nýjasta ekki mikið sjokk. Ég held að þessi ákvörðun hafi verið tekin til að sjá til þess að allir taki þessu alvarlega. Ég og maðurinn minn fórum í göngutúr á laugardaginn og við sáum í raun engan mun á götunni um miðjan dag,“ segir Dagný. Hins vegar var mikill munur á þeim fjölda sem nýtti sér almenningssamgöngur og fámennt var á veitingastöðunum sem margir hverjir höfðu þegar gert ráðstafanir með því að fækka sætum eða einfaldlega loka.

Það voru þó einhverjir sem tóku þann pól í hæðina að storma í matvöruverslanir og hamstra mat, líkt og víðar hefur gerst, til að mynda á Íslandi. Dagný átti allt eins von á því að það yrði annað eins áhlaup á verslanir nú eins og í síðustu viku en líklega hafa flestir verið búnir að birgja sig vel upp. Þar fyrir utan hefur fólk verið hvatt til að fara ekki í matvörubúðir heldur nota frekar netverslanir.

„Við búum fyrir ofan 24/7 matarmarkað og síðasta miðvikudag þá var allt gjörsamlega vitlaust eftir að fréttir af fyrstu aðgerðum komu. Þegar tilkynnt var að skólum yrði lokað og vinnustaðir hvattir til að senda fólk heim. Þá voru læti fram á nótt, gatan lokuð og endalaust verið að flauta. Við vorum bara úti á svölum að fylgjast með, þetta var algjört grín.“

Í samningaviðræðum um aukaskjáinn á hverjum degi

Líkt og áður sagði hafa Dagný og maðurinn hennar hafa bæði verið að vinna heima síðan á fimmtudaginn í síðustu viku en vinnustaðir þeirra beggja brugðust strax við með því að láta fólk vinna heiman frá sér. Vinnuaðstaðan er ekki eins og best verður á kosið en þau gera gott úr stöðunni.

„Við erum með eitt skrifborð og eitt aukaherbergi sem við skiptumst á að nota. Við erum í samningaviðræðum á hverjum degi hver fær aukaskjáinn,“ segir hún kímin. „Ég er í þannig starfi að það er mikið af símafundum en það ættu að vera mikil mannleg samskipti í því sem ég er að gera. Í gær var ég á tíu símafundum og þar af mættu börn á fjóra. Við erum ekki með börn, en maður getur rétt ímyndað sér hvernig staðan er hjá þeim sem eru með börn og báðir aðilar eru að reyna að sinna fullu starfi og börnum samtímis.“

Á vinnustöðum þeirra er reynt að halda eðlilegri rútínu og vinnuskipulagi eins og hægt er, þrátt fyrir aðstæður.

„Dagurinn í dag er sjöundi dagurinn þar sem eina manneskjan sem ég hitti er maðurinn minn. Fyrir utan kannski afgreiðslufólkið á kössunum í búðunum. En það er nóg eftir.“

Er guðslifandi fegin að búa ekki ein 

Dagný segir þó muna miklu að geta farið aðeins út. „Mér finnst muna ótrúlega miklu á því hvernig samkomubannið var sett upp hér og til dæmis í Austurríki og á Ítalíu þar sem fólk má hreinlega ekki fara út nema til að versla. Hér er ekki búið að banna göngutúra eða að fara út að hlaupa.“

Dagný var orðin mjög þreytt á inniverunni þannig að hún ákvað að gera það fyrir reglu að taka kortérs göngutúr um hverfið á morgnana, en það er sá tími sem það tekur hana venjulega að hjóla í vinnuna. „Það er svo gott að fara eitthvað út úr húsi. Ég var stressuðust yfir því að það yrði tekið af manni, að maður mætti ekki vera úti yfir höfuð. Það er gott að við erum alla vega ekki enn þá kominn á þann stað hér. Á meðan aðrir eru að hamstra þá er ég meira í því að kaupa lítið í búðinni í hvert sinn til að hafa afsökun fyrir því að fara aðeins oftar.“

Dagný er því alveg þokkalega vel haldin þrátt fyrir óeðlilega mikla inniveru og takmörkuð mannleg samskipti. Hún veit hins vegar til þess að samstarfsfélagar hennar sem búa einir eiga margir hverjir mun erfiðara með þetta. „Það fer auðvitað eftir skapgerð fólks en ég er guðslifandi fegin að búa ekki ein eins og er.“

Ákveðinn léttir að geta ekki smitað sína nánustu 

Dagný segist sjálf ekki beint hrædd við kórónuveiruna og að vissu leyti upplifir hún ákveðinn létti að vera ekki í kringum þá sem henni þykir vænt um og eru í áhættuhópum heima á Íslandi. Hún á þá ekki á hættu að smita þá einstaklinga. „En á sama tíma, ef eitthvað kæmi fyrir fólkið manns heima, þá þætti manni erfitt að vera fastur hér. Við vitum að margir námsmenn og pör sem eru með börn og eru bæði í vinnu sem drifu sig heim áður en landið lokaði. Óvissustigið er svo mikið. Við erum bæði í fullu starfi hér í Kaupmannahöfn þannig það kom ekki til greina að hjá okkur að fara heim.“

Hún á erfitt með að skilja rökin að baki ákvörðuninni um að loka landinu, en eins og fram hefur komið í fréttum var ákvörðunin ekki tekin að undirlagi heilbrigðisyfirvalda í landinu, enda ekki talið líklegt að hún skili tilætluðum árangri.

„Þetta er líka svolítið óskýrt, eins og fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn. Ef maður býr og starfar hér, má maður þá fara heim og koma aftur? Ég er ekki einu sinni enn þá klár á því. Þess vegna held ég líka að margir hafi drifið sig heim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert