Dauðsföll orðin 70 þúsund

Kórónuveirusmit hefur komið upp í 191 landi frá því að …
Kórónuveirusmit hefur komið upp í 191 landi frá því að faraldurinn hófst. AFP

Yfir 70 þúsund eru látnir af völdum kórónuveirufaraldursins á heimsvísu, samkvæmt tölum fréttastofu AFP. Fjöldi smitaðra á heimsvísu nálgast 1,3 milljónir manna.

Kórónuveirusmit hefur komið upp í 191 landi frá því að faraldurinn hófst, en talið er að rúmlega 243 þúsund hafi náð sér fyllilega af COVID-19. 

Fram kemur í frétt AFP vegna málsins að tölurnar séu teknar saman frá opinberum gögnum hvers lands fyrir sig, sem og úr gögnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Tekið er fram að fjöldi staðfestra smita sé líklega einungis brotabrot af þeim fjölda sem raunverulega hafi smitast af kórónuveirunni, þar sem mörg lönd taki aðeins sýni í alvarlegustu tilfellunum.

Flest dauðsföll af völdum kórónuveirunnar hafa orðið á Ítalíu þar sem dauðsföll nálgast 16 þúsund og smit 129 þúsund. Spánn fylgir fast á hæla Ítalíu með 13 þúsund dauðsföll og 128 þúsund smit. Þar á eftir koma Bandaríkin með rúmlega níu þúsund dauðsföll, en þar er fjöldi smita hins vegar orðinn mun hærri en í nokkru öðru landi eða rúmlega 337 þúsund.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert