Ástand Johnsons „stöðugt“

Boris Johnson er veikur af Covid-19 sjúkdómnum.
Boris Johnson er veikur af Covid-19 sjúkdómnum. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hóf sinn fjórða dag á sjúkrahúsi vegna Covid-19-sjúkdómsins í morgun og er ástand hans stöðugt. „Hann er stöðugur, fer batnandi, settist upp og átti í samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk í dag,“ sagði menningarráðherrann Oliver Dowden við fréttastofu BBC. „Ég held að þetta sé að koma hjá honum.“

Johnson er þekktasti stjórnmálaleiðtogi í heiminum sem hefur sýkst af kórónuveirunni og segir fréttastofa AFP að ferð hans á gjörgæsludeild á mánudag sé fordæmalaus á síðari tímum fyrir forsætisráðherra sem glímir við neyðarástand heillar þjóðar.

Oliver Dowden menningarráðherra.
Oliver Dowden menningarráðherra. AFP

Framlenging vofir yfir

Eins og áður hefur komið fram fyllir utanríkisráðherrann Dominic Raab skarð Johnsons meðan forsætisráðherrann er á sjúkrahúsi en talið er að framlenging á útgöngubanninu sem er í gildi á Bretlandi vofi nú yfir. Raab og ríkisstjórnin hafa þó gefið út að engar tilkynningar varðandi það verði gefnar fyrr en hið upprunalega útgöngubann hefur runnið sitt skeið.

mbl.is