Veirukreppan farin að bíta

Andreas Vosskuhle, forseti þýska stjórnlagadómstólsins, tekur af sér hattinn á …
Andreas Vosskuhle, forseti þýska stjórnlagadómstólsins, tekur af sér hattinn á þriðjudaginn. AFP

Efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar á Evrópu komu skýrar í ljós í gær þegar þrjú af helstu ríkjum álfunnar, Bretland, Frakkland og Þýskaland, greindu öll frá miklum samdrætti sem rekja má beint til veirunnar og viðbragða gegn henni.

Englandsbanki spáir því að þjóðarframleiðsla Breta muni falla um 14% á þessu ári vegna kórónuveirunnar. Ákvað bankinn að halda stýrivöxtum sínum í 0,1% vegna þessa, en spár bankans gera einnig ráð fyrir hagvexti upp á 15% á næsta ári þegar faraldurinn verður um garð genginn.

Breska ríkisstjórnin ræddi í gær hvernig létta ætti á samkomubanni sínu, en gildistími þess var framlengdur um þrjár vikur. Boris Johnson forsætisráðherra hyggst hins vegar kynna bresku þjóðinni tillögur sínar á sunnudaginn um hvernig létt verði á banninu í skrefum.

Versta hrun frá sameiningu

Opinberar tölur frá Þýskalandi sýndu að iðnaðarframleiðsla þar í landi féll um 9,2% milli mánaða í marsmánuði. Er þetta mesta fall í framleiðslunni þar í landi frá árinu 1991 þegar mælingar hófust í sameinuðu Þýskalandi.

Í Frakklandi var staðan verri, en þar dróst iðnaðarframleiðsla saman um 16,2% milli mánaða í mars. Var samdrátturinn rakinn til strangra aðgerða franskra stjórnvalda til þess að ná böndum á kórónuveirufaraldrinum, en byggingariðnaðurinn franski dróst saman um 40,1% í mars eftir að hafa vaxið um 1,1% í febrúar.

Helsta undantekningin frá þróuninni var í lyfjaiðnaðinum, sem óx um 15,9% í mars, sem og í iðnaði sem framleiddi tilbúnar máltíðir og barnamat.

Á sama tíma ríkir enn óvissa um hver næstu skref Evrópusambandsins verða eftir úrskurð þýska stjórnlagadómstólsins á þriðjudaginn, þar sem Seðlabanki Evrópu var krafinn svara um stórfelld kaup sín á ríkisskuldabréfum vegna kreppunnar.

Heimildir Financial Times innan æðstu stjórnar seðlabankans herma að þar vilji menn ekki svara úrskurðinum beint, þar sem slíkt gæti grafið undan meintu sjálfstæði bankans, og um leið opnað á að aðrir dómstólar innan aðildarríkja ESB færu að gera athugasemdir við störf bankans.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert