Önnur bylgja gæti verið hafin í Kína

Heilbrigðisstarfsfólk í Jilin héraði í tilfinningaríku faðmlagi.
Heilbrigðisstarfsfólk í Jilin héraði í tilfinningaríku faðmlagi. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa nú tilkynnt að önnur bylgja kórónuveiru gæti verið hafin í norðausturhluta Kína en borgin Shulan í Jilin-héraði hefur nú verið skilgreind sem hættusvæði. Nýtt tilfelli hefur einnig greinst í Wuhan.

Embættismenn í Jilin juku hættustig Shulan úr miðlungs í hátt í gær en daginn áður hafði hættustigið verið hækkað úr lágu í miðlungs eftir að kona greindist smituð á fimmtudag. Guardian greinir frá þessu.

Ellefu ný tilvik voru staðfest í Shulan í gær en þau má öll rekja til konunnar. Sóttvarnaráðstafanir hafa verið auknar í borginni, skólum hefur verið lokað og eru nú ónauðsynleg ferðalög óheimil.

Nýju tilfellin 11 gerðu heildarfjölda nýstaðfestra tilfella í Kína í gær að fjórtán. Er það mesti fjöldi nýgreindra smita síðan 28. apríl. Meðal þeirra var fyrsta tilfellið í meira en mánuð sem greindist í Wuhan í miðju Hubei-héraði þar sem veiran greindist fyrst í lok síðasta árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert