Morðrannsókn tekin til rannsóknar

Wanda Cooper-Jones, móðir Ahmaud Arbery, tók þátt í minningarathöfn um …
Wanda Cooper-Jones, móðir Ahmaud Arbery, tók þátt í minningarathöfn um son sinn á laugardag. AFP

Ríkissaksóknari Georgíu hefur óskað eftir því að bandaríska dómsmálaráðuneytið rannsaki hvernig staðið var að morðrannsókn í ríkinu er óvopnaður svartur skokkari var skotinn til bana. Feðgarnir sem frömdu morðið voru ekki vistaðir á bak við lás og slá fyrr en 74 dögum eftir morðið.

Ahmaud Arbery sem var 25 ár gamall var skotinn til bana þegar hann var úti að hlaupa á sólríkum degi í febrúar. Morðið var framið í íbúðahverfi í bænum Brunswick. Tveir hvítir menn voru handteknir og ákærðir fyrir morðið í síðustu viku. 

Chris Carr, ríkissaksóknari í Georgíu, greindi frá þessu í gærkvöldi. Í tilkynningu frá embættinu kemur fram að óskað sé eftir því að ríkið rannsaki hvort eðlilega hafi verið staðið að rannsókninni á máli Ahmaud Arbery allt frá upphafi. „Fjölskyldan, samfélagið og Georgíu-ríki eiga rétt á því að fá svör,“ segir Carr í tilkynningunni. 

Þar kemur fram að meðal annars sé farið fram á að samskipti milli skrifstofu saksóknara í Brunswick og eins Waycross verði meðal annars rannsökuð en bæði embætti komu að málinu í upphafi. 

Gregory McMichael og sonur hans, Travis McMichael.
Gregory McMichael og sonur hans, Travis McMichael. AFP

Morðið á Arbery vakti heimsathygli, en ekki þegar það var framið 23. febrúar heldur í síðustu viku þegar birt var 28 sekúndna langt símamyndskeið þar sem drápið sést. Þar sést Arbery á hlaupum í íbúðagötu og nálgast hvítan pallbíl á hægri akrein þar sem maður stendur á palli bílsins. Þegar Arbery sést reyna að hlaupa fram hjá bílnum mætir hann öðrum manni vopnuðum haglabyssu. Til átaka kemur milli þeirra og síðan heyrast þrír skothvellir. 

Hér er hægt að sjá myndskeiðið

Lögreglan bar kennsl á hvítu mennina tvo og reyndust þeir vera feðgarnir Travis McMichael, 34 ára, og Gregory McMichael, 64 ára, sem báðir búa í Brunswick. Þeir voru handteknir á fimmtudag og ákærðir fyrir morð og líkamsárás. 

Samkvæmt lögregluskýrslu frá því í febrúar er haft eftir Gregory McMichael á þeim tíma að hann hafi talið að Arbery hafi staðið á bak við nokkur innbrot í hverfinu og hann hafi séð unga manninn hlaupa eins og hann ætti lífið að leysa niður götuna. 

McMichael sagði við lögreglu að hann hefði farið inn og sótt .357 Magnum-byssu sem hann átti á meðan sonur hans greip haglabyssu með sér. Þegar þeir hafi loksins náð Arbery hafi Travis McMichael farið út úr bílnum vopnaður haglabyssunni. Arbery hafi ráðist á hann með ofbeldi að sögn föður Travis, samkvæmt lögregluskýrslunni frá því í febrúar. Gregory McMichael sagði að sonur hans hefði skotið Arbery sem féll til jarðar. 

Eftir að myndskeiðið var birt opinberlega í síðustu viku greip mikil reiði um sig meðal fólks og fóru ýmsir úr heimi fræga fólksins fram á að gripið yrði til aðgerða. Má þar nefna körfuboltamanninn LeBron James og leikkonuna Zoe Kravitz.

Margir bentu á líkindin milli þessa máls og morðsins á öðrum ungum svörtum manni, Trayvon Martin, í Flórída 2012. 

Borgarstjórinn í Atlanta, Keisha Lance Bottoms, lýsti morðinu á Arberys sem aftöku án dóms og laga og í viðtali við CNN í gær sagði hann að það sé skelfilegt að sjá þetta gerast í Bandaríkjunum árið 2020. Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Georgíu, Vic Reynolds, segir að nægar sannanir séu til þess að ákæra McMichaels-feðgana fyrir morð en hefur ekki útskýrt hvers vegna það tók lögregluna 74 daga að setja þá í varðhald. Rannsóknin standi enn yfir og jafnvel verði fleiri handteknir.

Frétt New York  Times

Frétt Washington Post

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert