Var „versti fjöldamorðingi Danmerkur“ saklaus?

Erik Solbakke Hansen, „versti fjöldamorðingi Danmerkur“, lést á öryggisgeðdeild árið …
Erik Solbakke Hansen, „versti fjöldamorðingi Danmerkur“, lést á öryggisgeðdeild árið 1997 þar sem hann hafði setið síðan hann játaði á sig 38 morð og var dæmdur til vistunar um ótiltekinn tíma árið 1989. Norskur doktor í afbrotafræði og einn fremsti yfirheyrslusérfræðingur heims telur Hansen ekki hafa myrt nokkra manneskju. Ljósmynd/Úr einkasafni

Erik Solbakke Hansen heitinn hefur um áratugaskeið átt sér hinn vafasama titil „versti fjöldamorðingi Danmerkur“. Hansen var árið 1989 dæmdur til vistar á öryggisgeðdeild um óákveðinn tíma og lést á Kofoedsminde-sjúkrahúsinu á Lálandi 2. apríl 1997, á 49. aldursári.

Hansen viðurkenndi meðal annars að hafa staðið á bak við stórbrunann á Hotel Hafnia í Kaupmannahöfn 1. september 1973, þar sem 35 manns létu lífið. Eins viðurkenndi hann að hafa nauðgað og myrt 15 ára gamla stúlku á eynni Fanø úti fyrir Esbjerg árið 1980 og að hafa kveikt í kertaverksmiðjunni Asp-Holmblad á Helsingjaeyri 24. október 1982, þar sem slökkviliðsmaður lést af slysförum við starf sitt, og öðru húsi á sama stað árið eftir þar sem 21 árs gömul kona fórst.

Alls var Hansen því dæmdur fyrir að hafa myrt 38 manns á tíu ára tímabili, þar af 35 í einum og sama brunanum. Hann játaði 27 íkveikjur í viðbót auk þess að hafa reynt að kveikja í lestarvagni á járnbrautarstöðinni í Hillerød.

Engin gögn, engin vitni

Nú eru hins vegar blikur á lofti um hvort Erik Solbakke Hansen hafi verið sekur um nokkurt þeirra brota sem hann játaði við lögregluyfirheyrslur og fyrir dómi á níunda áratug síðustu aldar.

Hansen var þroskaheftur. Samkvæmt nýjum heimildaþáttum um hann sem danska sjónvarpsstöðin TV2 tekur til sýninga á morgun, 25. maí, og heita Játningin, eða Tilståelsen, var engum sönnunargögnum til að dreifa um þátt Hansens í neinu þeirra brota sem hann játaði á sig auk þess sem engin vitni gátu staðfest að þau hefðu séð til hans á vettvangi nokkurs brotanna. Játning hans var eini grundvöllur dómsorðsins.

Enginn lögfræðingur var viðstaddur 85 af 89 yfirheyrslur sem hann sætti auk þess sem hann breytti framburði sínum mikið eftir því sem á leið.

Óttast alvarlegasta dómsmorð síðari tíma

Þáttagerðarmenn TV2 hafa þaulfarið yfir öll skjöl og gögn málsins og haft sér til fulltingis og ráðgjafar Asbjørn Rachlew, yfirlögregluþjón í lögreglunni í Ósló í Noregi og einn af fremstu yfirheyrslusérfræðingum heims, að sögn norska ríkisútvarpsins NRK.

Rachlew er doktor í afbrotafræði og hefur síðastliðinn áratug unnið að því að innleiða nýja aðferðafræði við yfirheyrslur grunaðra sakamanna hjá norsku lögreglunni sem Sameinuðu þjóðirnar íhuga nú að gera að alþjóðlegum staðli í yfirheyrslutækni.

„Ég óttast að Danir gætu staðið frammi fyrir sínu alvarlegasta dómsmorði [n. rettsskandale] á síðari tímum,“ segir afbrotafræðingurinn í heimildaþáttunum. Hann segist hafa komið auga á hvernig framburður Hansens rímaði í fyrstu engan veginn við upplýsingar lögreglu en tók svo smám saman á sig heilsteyptari og nákvæmari mynd.

„Ég sá fljótlega að þessi brothætti maður var leiddur gegnum lögregluyfirheyrslurnar í sífellt ríkari mæli,“ segir Rachlew við norska ríkisútvarpið NRK í dag. „Þegar ég las yfirheyrsluskjölin, spurningu fyrir spurningu, og bar saman við dómsforsendurnar sá ég að eitthvað kom ekki heim og saman. Yfirheyrslurnar einkenndust af leiðandi spurningum,“ segir yfirlögregluþjónninn og bætir því við að dómurinn hafi lagt til grundvallar að yfirheyrslurnar hafi verið framkvæmdar af „ýtrustu varfærni“ og Hansen aldrei verið staðinn að ósannindum.

Rætt við Hansen sem sex ára barn

Rachlew rannsakaði yfirheyrslugögnin í 500 klukkustundir og slær nú fram þeirri niðurstöðu sinni að dómsforsendurnar hafi verið rangar. „Því meira sem ég las, þeim mun betur áttaði ég mig á því hvernig hann hafði verið leiddur gegnum yfirheyrslurnar.“

Stjórnandi rannsóknarinnar lést árið 2017, hann skrifaði í einni af skýrslum sínum um málið að ræða hefði þurft við Hansen sem væri hann sex til átta ára gamalt barn og útskýra allar hliðar yfirheyrslunnar fyrir honum áður en framburður hans var færður til bókar.

Þá hefur það komið fram að stjórnandinn hafi farið langa bíltúra með Hansen auk þess að fara með hann á veitingastaði. „Mér sýnist það blasa við að stjórnandi rannsóknarinnar stýrði játningu Hansens svo kirfilega að hún féll að lokum eins og flís við rass að gögnum lögreglunnar,“ skrifar Rachlew í skýslu sinni um málið.

Gamaldags játningamiðaðar yfirheyrsluaðferðir

Hann telur annað ótækt en að endurupptökunefnd fari ítarlega yfir málið og í sama streng tekur Mette Grith Stage, einn annálaðasti verjandi Danmerkur sem hefur komið að mörgum stærstu sakamálum þjóðarinnar í seinni tíð, svo sem máli Natösju Colding-Olsen, öðru nafni Kundby-stúlkunnar, sem hlaut átta ára dóm árið 2017 fyrir að skipuleggja hryðjuverkaárás á tvo danska skóla, og máli 67 ára gamals manns sem skaut lögmann til bana í réttarsal Héraðsdóms Kaupmannahafnar 16. september 2014 svo eitthvað sé nefnt.

Rachlew segir NRK að hann sjái margt líkt með máli Hansens og málum Svíans Sture Bergwall, sem játaði átta morð á hliðarsjálf sitt Thomas Quick en reyndist saklaus af þeim öllum, og Norðmannsins Fritz Yngvar Moen sem sat inni í 18 ár fyrir tvö manndráp sem hann að lokum reyndist ekki hafa framið.

„Hér eru notaðar gamaldags játningamiðaðar yfirheyrsluaðferðir gegn viðkvæmum manneskjum og öll dómsmeðferðin byggð á þeirri játningu sem út úr þeim kemur,“ segir Rachlew.

„Eitt af því sem varð mér hvatning til að taka þátt í þessu [gerð heimildamyndarinnar um Hansen] er að danska lögreglan, ólíkt okkur, hefur ekki gengið til uppgjörs við þessar gamaldags og leynilegu yfirheyrsluaðferðir. Hún neitar enn að nota hljóðupptökur. Ég vona að danska lögreglan noti nú tækifærið og líti í spegilinn með gleraugum gagnrýninnar. Hefur danska lögreglan gert upp sín mál? Ég er ekki viss,“ lýkur afbrotafræðingurinn máli sínu við NRK.

NRK

Danska TV2

Sjællands Nyheder

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert