Bókþyrstir Frakkar taka við sér

Vöngum velt yfir bókaúrvali í franskri bókabúð.
Vöngum velt yfir bókaúrvali í franskri bókabúð. AFP

Bóksala hefur aukist í Frakklandi frá því byrjað var að aflétta hömlum vegna kórónuveirunnar og nemur aukningin 230% á einni viku. 

Samkvæmt rannsókn viðskiptaritsins Livres Hebdo var brjálað að gera í bókabúðum vikuna 11.-17. maí, fyrstu vikuna eftir að bókabúðir voru opnaðar að nýju í landinu. Svo virðist sem lesendur hafi verið orðnir ansi örvæntingarfullir eftir lesefni enda bókasöfn enn lokuð.

Beðið í röð fyrir utan Folies d'Encre-bókabúðina í Montreuil.
Beðið í röð fyrir utan Folies d'Encre-bókabúðina í Montreuil. AFP

Samt sem áður er bóksalan um 60% minni en fyrir ári enda ekki búið að opna allar bókabúðir landsins. Bókaútgefendur segja stöðuna erfiða og tekjusamdrátt ársins 80%. 

Fá ríki í Evrópu státa af jafn mörgum sjálfstætt reknum bókabúðum og Frakkland og gilda þar reglur varðandi lágmarksverð til að verja þær fyrir afsláttarkjörum netrisa eins og Amazon.

Bókabúð í Neuilly-sur-Seine.
Bókabúð í Neuilly-sur-Seine. AFP

Menningarmálaráðherra Frakklands, Franck Rieseter, greindi frá því á föstudag að unnið sé að aðgerðapakka fyrir bókaútgefendur og bóksala.

Menningarmálaráðherra Frakklands, Franck Riester, var með grímu þegar hann kíkti …
Menningarmálaráðherra Frakklands, Franck Riester, var með grímu þegar hann kíkti í bækur í bókabúð í Orleans nýlega. AFP
mbl.is