Biden segir Trump „algjört flón“

Joe Biden með grímuna í gær.
Joe Biden með grímuna í gær. AFP

Joe Biden segir Donald Trump Bandaríkjaforseta „algjört flón“ fyrir að gera lítið úr honum fyrir að hafa notað andlitsgrímu opinberlega til að verjast kórónuveirunni.

Í viðtali við CNN sagði Biden, sem er forsetaefni demókrata, að hegðun forsetans verði sífellt skringilegri.

Biden notaði andlitsgrímu þegar fallinna hermanna var minnst í gær á meðan forsetinn gerði það ekki. Trump endurtísti ljósmynd af Biden með grímuna með skilaboðum þar sem gert var grín að honum fyrir að nota grímuna.

„Hann er flón, algjört flón að haga sér svona,“ sagði Biden. „Allir háttsettir læknar í heiminum segja að maður eigi að nota grímu á almannafæri.“

Spurður hvort það að nota grímu sýni veikleika eða styrk sagði Biden: „Það sýnir leiðtogahæfni. Forsetar eiga að leiða, ekki taka þátt í svona vitleysu og falskri karlmennsku.“

Trump, sem er 73 ára, og Biden, sem er 77 ára, eru báðir í áhættuhópi vegna COVID-19 sökum aldurs. Yfir 94 þúsund manns hafa látist af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum. 

mbl.is