Mögulega dæmdir í lífstíðarfangelsi

Lögreglan stendur vörð við dómshúsið í París.
Lögreglan stendur vörð við dómshúsið í París. AFP

Réttarhöld yfir 14 manneskjum sem eru ákærðar fyrir að hafa aðstoðað vígamennina sem réðust inn á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo og matvörumarkað gyðinga í París í janúar 2015 hófust í dag. 

Árásirnar hófust 7. janúar 2015 og í kjölfarið fylgdu fleiri hryðjuverkaárásir, þar á meðal árásir einstaklinga sem hafa fengið innblástur frá Ríki íslams, svonefndra „lone wolf“, en yfir 250 manns hafa látist í hryðjuverkum í París undanfarin fimm ár.

Við ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo 7. janúar 2015.
Við ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo 7. janúar 2015. AFP

Réttarhöldin sem fara fram við sérstakan dómstól í París munu standa yfir í tvo og hálfan mánuð. Um 150 sérfræðingar og vitni hafa verið kölluð til en þremenningarnir sem frömdu vígin á skrifstofu vikuritsins og í matvöruversluninni voru allir drepnir af lögreglu í kjölfar árásanna. 

Saksóknari sem fer með hryðjuverk hjá franska ríkinu, Jean-François Ricard, segir í viðtali við France Info að þeir sem réttað er yfir núna séu þeir sem komu að skipulagningu, undirbúningi, útveguðu fjármagn, búnað, vopn og annað.

„Allt þetta er grundvallaratriði þegar kemur að hryðjuverkaárás,“ segir Ricard og bætir við að aðstandendur þeirra 17 sem voru drepnir í árásunum séu meðal þeirra sem muni bera vitni við réttarhöldin. 

AFP

12 manneskjur voru skotnar til bana þegar bræðurnir Chérif og Saïd Kouachi réðust inn á skrifstofur Charlie Hebdo 7. janúar 2015. Daginn eftir drap Coulibaly, sem varð náinn Chérif þegar þeir afplánuðu saman, 27 ára gamla lögreglukonu, Clarissa Jean-Philippe, við umferðareftirlit í Montrouge-hverfinu Parísar. 

AFP

9. janúar tók Couli­ba­ly fólk gísl­ingu í mat­vöru­búð gyðinga og drap fjóra gyðinga í versluninni  Hyper Cacher. Hann tók upp myndskeið þar sem fram kom að árásirnar þrjár tengdust allar og væru framdar í nafni vígasamtakanna Ríkis íslams.

Coulibaly var drepinn í versluninni þegar lögreglan gerði áhlaup á hana og Kouachi-bræðurnir voru drepnir þegar lögreglan gerði áhlaup á prentsmiðju sem þeir földu sig í, Damm­art­in-en-Goële, sem er fyrir utan París.  

Lassana Bathily starfsmaður Hyper Cacher sem kom viðskiptavinum verslunarinnar til …
Lassana Bathily starfsmaður Hyper Cacher sem kom viðskiptavinum verslunarinnar til bjargar með því að fela þá í kælinum. AFP

Charlie Hebdo end­ur­birti í gær  skopteikn­ing­ar af Múhameð spá­manni í tilefni af réttarhöldunum.

„Við mun­um aldrei gef­ast upp,“ skrif­ar rit­stjóri Charlie Hebdo, Laurent „Riss“ Souris­seau, í rit­stjórn­ar­grein sem fylg­ir end­ur­birt­ingu skop­mynd­anna í nýj­asta hefti viku­rits­ins.

AFP

Útgáfan var strax í gær fordæmd af utanríkisráðuneyti Pakistan sem sagði endurprentun myndanna afar særandi. Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, varði aftur á móti frelsið til að guðlasta og minnist fórnarlamba árásarinnar. 

Forseti Frakklands á aldrei að dæma val ritstjórnarval blaðamanns eða ritstjórnarlegt efni þar sem fjölmiðlafrelsi gildir sem er dýrmætt að virða, sagði Macron en hann er í heimsókn í Beirút í Líbanon. 

Forsíða Charlie Hebdo í gær.
Forsíða Charlie Hebdo í gær. AFP

Christophe Deloire, framkvæmdastjóri Blaðamanna án landamæra (RSF), fagnar ákvörðuninni um endurbirtingu og segir hana lýsa hugrekki. Hún sé sterk staðfesting á tjáningarfrelsinu og að ritstjórnin neiti að láta þagga niður í sér. 

Réttarhöldin áttu að hefjast í vor en var frestað vegna kórónuveirunnar. Af 14 ákærðum eru þrír ekki viðstaddir: Hayat Boumedienne, unnusta Coulibaly, og bræðurnir Mohamed og Mehdi Belhoucine en þau flúðu öll til svæða í Sýrlandi og Írak sem voru undir yfirráðum Ríkis íslams nokkrum dögum áður en árásirnar voru gerðar. 

Cherif Kouachi og Said Kouachi .
Cherif Kouachi og Said Kouachi . AFP

Belhoucine-bræðurnir eiga að hafa fallið í átökum þar sem þeir börðust með Ríki íslams og  frönsk stjórnvöld telja að Boumedienne sé á flótta í Sýrlandi. Handtökuskipun er í gildi gagnvart þeim öllum.

Tveir Frakkar af tyrkneskum uppruna, Mohamed Belhoucine og Ali Riza Polat, eiga yfir höfði sér þyngstu refsingarnar. Þeir eru ákærðir fyrir að vera samsekir við hryðjuverkaárás og þyngsta refsingin sem þeir gætu fengið er lífstíðardómur. 

Þeir sem dóu í árásinni á verslun gyðinga í París.
Þeir sem dóu í árásinni á verslun gyðinga í París. AFP

Belhoucine er talinn hafa verið hugmyndafræðilegur leiðbeinandi Coulibaly eftir að þeir kynntust í fangelsi. Á hann að hafa opnað fyrir aðgengi Coulibaly að Ríki íslams.

Polat, sem var náinn Coulibaly, er grunaður um að hafa átt stóran hlut í undirbúningi árásanna. Til að mynda að safna saman vopnabúri fyrir vígamennina. 

Hayat Boumeddiene og Amedy Coulibaly.
Hayat Boumeddiene og Amedy Coulibaly. AFP

Flestir hinna sem eru ákærðir eru ákærðir fyrir aðstoð við hryðjuverkasamtök og hámarksrefsing fyrir slíkt brot er 20 ára fangelsisdómur. Síðasti dagur réttarhaldanna er áætlaður 10. nóvember.

AFP
mbl.is