Gætu komið í stað Ginsburg

Barbara Lagoa (t.v.) og Amy Coney Barret (t.h.) þykja líklegar …
Barbara Lagoa (t.v.) og Amy Coney Barret (t.h.) þykja líklegar til að taka sæti við dómstólinn. Samsett mynd

Tveir dómarar hafa verið orðaðir við Hæstarétt Bandaríkjanna í ljósi þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti hyggst skipa nýjan dómara í stað Ruth Ginsburg fyrir forsetakosningar í nóvember.

Þær Barbara Lagoa og Amy Coney Barrett, dómarar við áfrýjunardómstóla í Bandaríkjunum, voru báðar skipaðar í sínar stöður af Trump og eru sagðar líklegar til þess að taka sæti við hæstaréttinn, samkvæmt fréttaveitu Reuters.

Barbara Lagoa er 52 ára, hálfkúbversk og fyrrverandi dómari við Hæstarétt Flórídaríkis. Hún er jafnframt fyrsti dómari dómstólsins af suðuramerískum uppruna en áður dæmdi hún á millidómstigi í Flórída. Var hún kjörin í hæstarétt af öldungadeild Bandaríkjanna eftir tilnefningu Trumps með 80 atkvæðum gegn 15 í september 2019. 

Amy Coney Barrett er 48 ára, kaþólsk og er líklegt að tilnefning hennar yrði umdeild þar sem hún þykir íhaldssöm. Var hún kjörin naumlega með 55 atkvæðum gegn 43, í umdæmisdómstól Bandaríkjanna í Chicago árið 2017 eftir tilnefningu Trumps.

Segja stuðningshópar þungunarrofs þar vestra að kjör hennar gæti orðið til þess að dómurinn líti framhjá dómafordæminu Roe gegn Wade, frá 1973, sem hefur gefið helsta fordæmið fyrir lögmæti þungunarrofs í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert