Ruth Bader Ginsburg látin

Ruth Bader Ginsburg.
Ruth Bader Ginsburg. AFP

Ruth Bader Ginsburg, dómari við hæstarétt Bandaríkjanna til 27 ára, er látin 87 ára að aldri. Í tilkynningu frá réttinum segir að dánarorsökin sé krabbamein.

Fráfall Ginsburg og þar með brotthvarf hennar úr stóli dómara mun gefa Donald Trump Bandaríkjaforseta færi á að tilnefna dómara við réttinn í hennar stað.

Munu reyna að fylla skarð Ginsburg fyrir kosningar

Takist Trump að koma í gegnum þingið tilnefningu sinni í skarð Ginsburg, gæti hann náð að beygja réttinn á verulega íhaldssama braut. Dómarar tilnefndir af forsetum úr flokki repúblikana myndu þá vera sex að tölu, gegn þremur skipuðum forsetum úr flokki demókrata.

Samkvæmt umfjöllun New York Times hafa öldungadeildarþingmenn repúblikana þegar lofað að reyna að fylla skarð hennar við dómstólinn, jafnvel þótt fyrsta kjörtímabil forsetans renni brátt skeið sitt á enda.

Tilnefndi Garland án árangurs

Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, átti lengri tíma til stefnu í embætti á öðru kjörtímabili sínu þegar öldungadeildarþingmenn repúblikana stóðu í vegi fyrir tilnefningu hans á dómaranum Merrick Garland við réttinn, einmitt á þeim grundvelli að forsetinn ætti of skamman tíma eftir í embætti og að tilnefna þyrfti í embættið að kosningum loknum.

Svo fór á endanum, repúblikönum tókst ætlunarverk sitt, og eftir kosningasigur sinn tilnefndi Trump dómarann Neil Gorsuch í það sæti sem Obama ætlaði Garland að skipa.

Þegar Obama tilnefndi Garland voru 237 dagar til kosninga. Í dag eru 46 dagar til kosninga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert