Játar að hafa nauðgað og myrt vísindakonuna

Frá Chania, höfuðstað Krítar.
Frá Chania, höfuðstað Krítar.

Bóndi á grísku eyjunni Krít hefur játað að hafa nauðgað og myrt bandaríska vísindakonu á eyjunni í fyrra. Réttarhöld yfir honum eru að hefjast í Grikklandi. 

Yiannis Paraskakis, sem er giftur og tveggja barna faðir, hefur verið ákærður fyrir manndráp, nauðgun og ólöglegan vopnaburð.

Lík Suzanne Eaton, sameindalíffræðings við Max Planck stofnunar við Dresden háskóla, fannst skammt frá borginni Chania tæplega viku eftir að síðast sást til hennar. 

Eaton, sem var 59 ára gömul, hafði verið á ráðstefnu skammt frá borginni og hafði farið í gönguferð án farsímans daginn sem hún hvarf.

Að sögn lögreglu ók Paraskakis í tvígang á Eaton, setti hana í skott bifreiðar sinnar og ók með hana í yfirgefið neðanjarðarbyrgi frá því í seinni heimstyrjöldinni. Þar nauðgaði hann Eaton. 

Paraskakis, sem er 28 ára gamall prestssonur, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í júlí í fyrra. 

Eaton var gift breska vísindamanninum Anthony Hyman og áttu þau tvo syni saman.

mbl.is