Komu í veg fyrir 10.000 manna brúðkaupsveislu

AFP

Yfirvöld í New York-ríki hafa fyrirskipað að hætt verði við 10.000 gesta brúðkaupsveislu að sögn Andrews Cuomos, ríkisstjóra New York. Veislan var í andstöðu við tilmæli yfirvalda í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. 

Lögreglan í Rockland lét yfirvöld vita af brúðkaupinu sem fara átti fram á mánudag í Williamsburg. 

„Við fengum ábendingu um að þetta ætti að fara fram, rannsökuðum málið og komumst að því að það væri líklega satt. Það hafði verið skipulagt stórt brúðkaup sem hefði farið gegn reglum um samkomur,“ sagði Cuomo á blaðamannafundi í kvöld. Fram kemur í frétt AFP að um hafi verið að ræða brúkaup strangtrúaðra gyðinga í Williamsburg. 

Sóttvarnareglur í New York kveða á um 50 manna samkomutakmarkanir. Að sögn Elizabeth Garvey, ráðgjafa Cuomos, höfðu 10.000 gestir boðað komu sína í brúðkaupið. 

„Þú mátt gifta þig. Þú mátt bara ekki fá þúsundir gesta í brúðkaupið. Þetta kemur í sama stað niður. Það er líka ódýrara,“ sagði Cuomo. 

Kórónuveirusmitum hefur farið fjölgandi í New York-ríki að undanförnu, sérstaklega í hverfum þar sem strangtrúaðir gyðingar eru meirihluti íbúa. Yfirvöld kynntu í síðustu viku hertar aðgerðir í umræddum hverfum. 

mbl.is