Tveir til viðbótar handteknir í Vín

Hryðjuverkaárásin var sú fyrsta í Austurrríki í áratugi, en það …
Hryðjuverkaárásin var sú fyrsta í Austurrríki í áratugi, en það var tvítugur öfgatrúarmaður sem framdi skotárás í miðborg Vín og varð fjórum að bana í síðasta mánuði. AFP

Austurrískir saksóknarar greindu frá því í dag að tveir til viðbótar hefðu verið handteknir í tengslum við hryðjuverkaárásina sem framin var í höfuðborginni Vín 2. nóvember.

Mennirnir voru handteknir á föstudag. Annar þeirra er 26 ára gamall austurrískur ríkisborgari af afgönskum uppruna, en ekki var greint frá þjóðerni hins. Farið verður fram á að mennirnir tveir verði í haldi fram að réttarhöldum í málinu.

Hryðjuverkaárásin var sú fyrsta í Austurrríki í áratugi, en það var tvítugur öfgatrúarmaður sem framdi skotárás í miðborg Vín og varð fjórum að bana í síðasta mánuði. Hann var skotinn til bana af lögreglu á vettvangi árásarinnar.

Átján hafa síðan verið handteknir í tengslum við hryðjuverkaárásina í Austurríki og í Sviss, og tveimur moskum í Vín verið lokað.

mbl.is