Teymi WHO ekki hleypt inn í Kína

Tedros Adhanom Ghebreyesus.
Tedros Adhanom Ghebreyesus. AFP

Teymi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem rannsaka átti uppruna Covid-19-sjúkdómsins í kínversku borginni Wuhan var meinaður aðgangur í landið. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að teymið hafi ekki haft fullnægjandi vegabréfsáritun. Kínversk yfirvöld segja aftur á móti að teyminu hafi verið meinaður aðgangur vegna þess að ferð þess hafi enn verið í skipulagningu. Yfirvöld í Peking samþykktu framkvæmd rannsóknarinnar eftir margra mánaða viðræður við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. 

Fyrstu tilfelli Covid-19 greindust í Wuhan í lok árs 2019. 

Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar, segir það hafa verið mikil vonbrigði að kínversk yfirvöld hafi ekki gengið úr skugga um vegabréfsáritanir teymisins, sérstaklega í ljósi þess að tveir vísindamenn úr teyminu hafi þegar hafið ferðalag til Kína. 

Talsmaður kínverskra yfirvalda, Hua Chunying, sagði í samtali við BBC að um misskilning væri að ræða og ekki væri tilefni til „að lesa of mikið í þetta“.

„Kínversk yfirvöld eru í nánu samstarfi við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, en það hafa komið upp minni háttar smit á fjölmörgum stöðum um heim allan og ýmis lönd og svæði eru upptekin við það að hafa hemil á veirunni og við þeirra á meðal,“ sagði Hua. 

„Við erum samt að styðja við alþjóðlegt samstarf og höldum áfram með skipulagningu hjá okkur. Við erum í sambandi við Alþjóðaheilbrigðismálstofnunina og eftir því sem ég kemst næst erum við enn í viðræðum um dagsetningar og skipulagningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert