Sturgeon heitir löglegri þjóðaratkvæðagreiðslu

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar.
Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. AFP

Nicola Sturgeon, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, heitir því að halda löglega þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Bretlandi þrátt fyrir andstöðu bresku ríkisstjórnarinnar.

Fái flokkur hennar, Skoski þjóðarflokkurinn, sterkan meirihluta í kosningum til skoska þingsins í maí muni hún freista þess að fá fram nýja þjóðaratkvæðagreiðslu. „Ég vil löglega þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég mun sækjast eftir umboði til hennar frá skosku þjóðinni í maí og fái ég það þá fylgi ég því eftir,“ sagði Sturgeon í viðtali við BBC í dag.

Skoski þjóðarflokkurinn hefur 61 sæti af 129 á skoska þinginu en kannanir benda til þess að flokkurinn geti náð hreinum meirihluta í næstu kosningum. Þá benda skoðanakannanir sömuleiðis til þess að meirihluti sé meðal Skota fyrir sjálfstæði frá Bretlandi. Í nýlegri könnun segjast 49% myndu greiða atkvæði með sjálfstæði en 44% gegn.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur hins vegar sagt að hann muni ekki heimila þjóðaratkvæðagreiðslu enda geti slík aðeins farið fram „einu sinni hjá hverri kynslóð“. Efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands árið 2015, að fengnu samþykki stjórnvalda í Bretlandi, en þá greiddu um 55% kjósenda atkvæði gegn sjálfstæði.

Á fundi með flokksmönnum á sunnudag lagði Sturgeon línurnar um hvernig farið skyldi að því að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrst skyldi reynt að fá blessun bresku ríkisstjórnarinnar til þess. 

Verði því hafnað muni skoska heimastjórnin kynna sína eigin lagasetningu um þjóðaratkvæðagreiðslu og berjast af krafti gegn fyrirsjáanlegum lögsóknum frá bresku ríkisstjórninni.

Í viðtali við Sunday Times um helgina segir Alan Trench, prófessor við stjórnskipunardeild UCL, að Skotar gætu einnig gripið til þess ráðs að halda ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði og nýtt þær til samningaviðræðna við Breta. 

mbl.is