Boris segir nei við sjálfstæði Skota

Sjálfstæðissinnaðir Skotar safnast saman fyrir framan þinghúsið í Edinborg, höfuðborg …
Sjálfstæðissinnaðir Skotar safnast saman fyrir framan þinghúsið í Edinborg, höfuðborg Skotlands, árið 2014. LESLEY MARTIN

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands muni ekki fara fram fyrr en næsta kynslóð Breta tekur við stjórnartaumunum í Bretlandi. Nicola Sturgeon, ráðherra heimastjórnar Skotlands, sagði nýlega að Skotar vildu sjálfstæði sem fyrst, til þess að fá inngöngu í Evrópusambandið að nýju.

Breska þingið verður að gefa leyfi til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skota fari fram.

„Af fenginni reynslu segi ég að þjóðaratkvæðagreiðslur í Bretlandi séu sjaldnast miklir gleðiviðburðir. Þeir hafa ekki mikinn sameiningarkraft meðal Breta og eiga aðeins að eiga sér stað einu sinni meðal hverrar kynslóðar,“ segir Boris.

Skotland kaus gegn sjálfstæði árið 2014 en Nicola Sturgeon segir að eftir Brexit-kosninguna árið 2016 hafi landslagið breyst. Skotar hafi kosið með þónokkrum meirihluta að vera áfram í Evrópusambandinu á sínum tíma og því ætti kosning um sjálfstæði þjóðarinnar að fara fram að nýju.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er ekki á þeim buxunum að …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er ekki á þeim buxunum að leyfa Skotum að kjósa um sjálfstæði sitt að nýju. AFP

Einu sinni hverja kynslóð

Kannanir sýna að meirihluti Skota vilji sjálfstæði, sér í lagi vegna deilna milli breskra stjórnvalda í London og heimastjórna Skota, Wales-verja og Norður-Íra um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum.

„Í allt of langan tíma hafa bresk stjórnvöld stýrt Skotlandi í ranga átt og náði það nýjum hæðum með Brexit. Það er ekki skrýtið að Skotar hafi margir hverjir fengið sig fullsadda,“ skrifaði Sturgeon á vefsíðu flokks síns, Skoska þjóðarflokksins (SNP), í áramótaávarpi sínu.

Þvert á móti sagði Boris Johnson í viðtali við BBC, spurður að því hvers vegna það væri réttlætanlegt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr ESB en ekki um sjálfstæði Skota, að „munurinn er að við héldum ESB kosningu árið 1975 og svo aftur árið 2016. Það virðist vera sá tímarammi sem reynist réttastur.“

mbl.is