Enginn geti hindrað kosningu um sjálfstæði

Sturgeon fagnar niðurstöðum kosninganna.
Sturgeon fagnar niðurstöðum kosninganna. AFP

Nicola Sturgeon, leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, segir stjórnvöld í Lundúnum hafa engan grundvöll til að koma í veg fyrir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands frá Bretlandi.

Kosningar voru haldnar í landinu á fimmtudag og enn stendur talning atkvæða yfir. Talið er að flokkur Sturgeon endi með að minnsta kosti 63 sæti á skoska þinginu, sem telur alls 129 sæti. Á sama tíma er talið ólíklegt að flokkurinn nái 65 sætum og þar með hreinum meirihluta.

Íhaldsflokkur Boris Johnsons forsætisráðherra Bretlands hefur átt góðu gengi að fagna í talningu atkvæða í Englandi undanfarna daga. Ljóst þykir á sama tíma að Verka­manna­flokk­ur­inn hafi beðið sögu­legt af­hroð. Flokk­ur­inn beið lægri hlut í auka­kosn­ing­um um þing­sætið í Hartlepool, einu sínu traust­asta vígi, og þá hef­ur hann glatað fjöl­mörg­um af sveit­ar­stjórn­ar­mönn­um sín­um.

En athyglin hefur beinst að Skotlandi, þar sem þjóðarflokkurinn SNP sóttist eftir meirihluta á þinginu í Edinborg og þar með skýru umboði til að boða til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði.

Johnson má vera sáttur við niðurstöðurnar í Englandi.
Johnson má vera sáttur við niðurstöðurnar í Englandi. AFP

Engin lýðræðisleg réttlæting

Í ræðu sinni í dag gerði Sturgeon lítið úr þeirri staðreynd að flokknum hefði mistekist það markmið sitt að ná hreinum meirihluta.

Þvert á móti væri nú stærri hluti þingsins fylgjandi sjálfstæði Skotlands, sagði hún og benti á að með Græningjum, sem einnig vilja sjálfstæði, væri meirihluti fyrir þessu á þinginu.

„Það er einfaldlega engin lýðræðisleg réttlæting fyrir Boris Johnson eða nokkurn annan til að hindra rétt fólksins í Skotlandi til að velja okkar eigin framtíð,“ sagði Sturgeon.

Búist er við því að Græningjar fái níu sæti á þinginu.

mbl.is