Samkynhneigðir sakaðir um hryðjuverk

Ramzan Kadyrov segir enga samkynhneigða menn í Téténíu.
Ramzan Kadyrov segir enga samkynhneigða menn í Téténíu. AFP

Stjórnvöld í Tétsníu í Rússlandi hafa hafið hryðjuverkarannsókn vegna tveggja samkynhneigðra manna sem flúðu ríkið á síðasta ári en voru handteknir nærri Moskvu í síðustu viku og fluttir til baka til Tétsníu.

Mannréttindasamtökin sem aðstoðuðu mennina við að flýja Tétsníu, þar sem greint hefur verið frá fangelsunum og pyntingum samkynhneigðra manna frá árinu 2017, segja ekki liggja fyrir nákvæmlega um hvað mennirnir hafa verið sakaðir, en að annar þeirra hafi áður verið yfirheyrður fyrir að nota tjákn tengt hinsegin samfélaginu á netspjallborði.

Salekh Magamadov og Ismail Isayev, 20 og 17 ára gamlir, voru staddir í borginni Nizhny Novgorod þegar þeir voru numdir á brott. Annar mannanna hringdi í neyðarsíma rússnessku LGBT-samtakanna og segist starfsmaður þeirra hafa heyrt öskur. Réttindalögmaður sem heimsótti íbúðina skömmu seinna segir að þar hafi verið skýr ummerki um átök.

Nokkru seinna heyrðist af mönnunum í varðhaldi í Tétsníu, þótt nákvæm staðsetning þeirra hafi ekki verið gefin upp og lögfræðingum hafi verið neitað um að hitta þá.

Talsmaður rússnesku LGBT-samtakanna sagðist óttast um öryggi mannanna, en dæmi væru um að samkynhneigðir menn hefðu horfið eða látið lífið eftir að þeir hefðu verið fluttir aftur til Tétsníu. Samtökin vissu ekki af rannsókninni á hendur mönnunum fyrr en greint var frá því í fjölmiðlum að þeir lægju undir grun um að tengjast hryðjuverkastarfsemi.

Aðstoðarmaður Ramzans Kadyrovs, leiðtoga Tétsníu, segir mennina hafa játað að hafa hjálpað ólöglegum vopnahópi, en slíkt getur varðað allt að 15 ára fangelsi.

Magamadov og Isayev flúðu Tétsníu í kjölfar þess að þeir voru handteknir og pyntaðir fyrir að hafa stofnað spjallborð á Telegram, og síðar birtust af þeim myndskeið þar sem þeir báðust afsökunar.

Rússesku LGBT-samtökin hafa hjálpað 200 manns að flýja ríkið eftir að herferðin gegn samkynhneigðum hófst. Stjórnvöld í ríkinu neita að þar sé slík herferð í gangi og Kadyrov gengur jafnvel svo langt að segja að engir samkynhneigðir menn fyrirfinnist í Tétsníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert