Vill hjálpa til við leitina á K2

Fimm er saknað af fjallinu eftir veturinn.
Fimm er saknað af fjallinu eftir veturinn. AFP

Fjallgöngumaðurinn Noel Hanna lýsir sig reiðubúinn til að snúa aftur á K2 í sumar til að aðstoða við leit að þeim fjallgöngumönnum sem hafa týnt lífi í fjallinu í vetur. Fimm göngumanna, þeirra á meðal Johns Snorra Sigurjónssonar, er saknað eftir veturinn.

Hanna reyndi sjálfur við K2 í síðasta mánuði en varð frá að hverfa vegna slæms veðurs. Sneri hann við stuttu áður en síðast spurðist til Johns Snorra og félaga hans snemma í febrúar. John Snorri, Ali Sadpara og JP Mohr lögðu á topp K2 4. febrúar en degi síðar rofnaði allt samband við þá. Á blaðamannafundi 18. febrúar greindu pakistönsk yfirvöld frá því að þeir væru formlega taldir af.

„Það er umræða um að hefja leit um leið og veðrið batnar og reyna þá að finna líkin,“ segir Hanna í samtali við BBC. „Ég hef boðið syni Ali [Sadpara] fram aðstoð mína sem og pakistanska klifurfélaginu,“ segir hann og bætir við að líklegast sé að leit hæfist um miðjan júní.

Noel Hanna er reyndur fjallagarpur en hann kleif K2 að sumarlagi og hefur auk þess farið níu sinnum á topp Everest, hæsta fjalls heims.

mbl.is