Tugir látnir í lestarslysi

Björgunarsveitarmenn við lestargöngin þar sem lestin fór af sporinu.
Björgunarsveitarmenn við lestargöngin þar sem lestin fór af sporinu. AFP

41 hið minnsta hefur látist og 200 eru enn fastir um borð í lest í Taívan eftir að hún fór af sporinu í lestargöngum í nótt. Áætlað er að um 490 manns hafi verið um borð í lestinni.

Að sögn BBC lenti lestin á vinnuvél sem hafði runnið út á lestarteinana.

Lestin var á leiðinni frá Tapei til Taitung og voru farþegarnir á leiðinni í helgarfrí. Vegna þess hve margir voru í lestinni þurfu einhverjir að standa. 

Björgunarsveitarmenn að störfum.
Björgunarsveitarmenn að störfum. AFP

Sumum farþeganna, sem sátu aftast í lestinni, tókst að komast hjálparlaust út úr henni en 100 manns hefur nú verið bjargað af björgunarsveitarmönnum. Þeir reyna nú að komast inn í þá lestarvagna sem skemmdust hvað mest.

Í fréttum fjölmiðla á staðnum segir að lestarstjórinn sé meðal hinna látnu.

Forseti Taívan, Tsai Ing-wen, sagði í yfirlýsingu að það væri forgangsverkefni að bjarga þeim sem enn væru fastir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert