Yfir 4 þúsund dauðsföll á sólarhring í fyrsta sinn

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er sagður þjóðarmorðingi vegna viljaleysis hans …
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, er sagður þjóðarmorðingi vegna viljaleysis hans til að koma böndum yfir faraldurinn. AFP

Alls dóu 4.195 úr Covid-19 í Brasilíu síðasta sólarhringinn og er það í fyrsta skipti sem fleiri en 4 þúsund deyja á einum sólarhring í landinu.

Stór og mikil bylgja faraldurs dynur nú á Brasilíubúum með hræðilegum afleiðingum. Alls hafa 337 þúsund dáið úr Covid-19 þar í landi og er það næstmesti fjöldi dauðsfalla í einu landi á eftir Bandaríkjunum. 

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið kallaður þjóðarmorðingi fyrir hörmuleg viðbrögð við faraldrinum en hann hefur ítrekað gert lítið úr honum og úr aðgerðum til að hefta útbreiðslu faraldursins. Þá hefur hann mært virkni lyfsins hýdróklórókín en komið hefur í ljós að það virkar ekki gegn sjúkdómnum.

mbl.is