Bolsonaro segir fólki að „hætta að væla“

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, ávarpaði þjóð sína í gær þar sem hann sagði fólki að „hætta að væla“ um Covid-19. Þá gagnrýndi hann aðgerðir sem beitt hefur verið til þess að hægja á útbreiðslu faraldursins.

Þessar athugasemdir komu í kjölfar þess að dauðsföllum af völdum Covid-19 á sólarhring fjölgaði verulega. Brasilía sér nú fram á verstu bylgju faraldursins til þessa, þar sem neyðarástand ríkir innan heilbrigðiskerfisins.

Til þess að bregðast við ástandinu hafa sumar borgir og ríki í Brasilíu sett eigin takmarkanir. Samkvæmt heilbrigðisyfirvöldum í Brasilíu hafa fleiri en 260 þúsund látið lífið af völdum Covid-19, um er að ræða næstflest dauðsföll á heimsvísu á eftir Bandaríkjunum.

BBC greinir frá.

Síðasta sólarhring létust 1.699 til viðbótar, örlitlu færri en á miðvikudaginn þar sem 1.910 létu lífið. Á sama tíma greindust 75.102 með veiruna sem er næstmesti fjöldi sem greinst hefur á einum sólarhring í Brasilíu. 

Þessi skyndilega fjölgun tilfella og dauðsfalla er talin eiga sér skýringar í nýju og bráðsmitandi afbrigði Covid-19, sem nefnt hefur verið brasilíska afbrigðið og talið eiga upptök sín í Manaus-borg í Amason-skóginum. 

Bolsonaro heldur þó áfram að gera lítið úr alvarleika veirunnar. „Hættið að væla. Hversu lengi ætlið þið að halda áfram að væla yfir þessu?“ sagði Bolsonaro á opinberum viðburði í gær. „Hversu mikið lengur ætlið þið að hanga heima og loka öllu? Enginn þolir þetta. Við sjáum á eftir þeim sem fallnir eru, en við þurfum lausnir.“

mbl.is