Fá jafnvel leyfi í næstu viku

Fjölmargir foreldrar og kennarar í Bandaríkjunum bíða eftir því að …
Fjölmargir foreldrar og kennarar í Bandaríkjunum bíða eftir því að hægt verði að bólusetja börn við Covid-19. AFP

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna undirbýr að heimila notkun bóluefnis Pfizer-BioNTech fyrir börn á aldrinum 12-15 ára. Markaðsleyfið verður jafnvel gefið út í næstu viku. Lyfjastofnun Evrópu hefur sett málið í flýtimeðferð.

Heimildir New York Times herma að leyfið verði jafnvel veitt undir lok næstu viku. Þetta þýðir að hægt verður að bólusetja milljónir til viðbótar en einhverjir foreldrar bíða með óþreyju eftir því að  börn þeirra verði bólusett. Klínískar rannsóknir sýna að  bóluefni Pfizer virkar alveg jafn vel á þennan aldurshóp og þá eldri.

Bólusetning barna er liður í því að hjarðónæmi myndist sem þýðir að færri veikjast alvarlega og um leið að færri deyja af völdum Covid-19, segir í frétt NYT frá því í gærkvöldi.

Líkt og greint var frá í síðustu viku hefur Pfizer-BioNTech sótt um markaðsleyfi fyrir bóluefni sitt við Covid-19, Comirnaty, til Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Samkvæmt frétt á vef Lyfjastofnunar Íslands frá því í gær hefur EMA hafið mat á umsókn Pfizer/BioNTech, sem lýtur að því hvort nota megi það hjá einstaklingum 12-15 ára. Núna er það samþykkt fyrir 16 ára og eldri.

Sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) mun beita flýtimati við rýni þeirra gagna sem lyfjafyrirtækið hefur sent inn. Meðal gagnanna eru niðurstöður stórrar yfirstandandi klínískrar rannsóknar sem ungmenni frá 12 ára aldri taka þátt í. Mun mat CHMP leiða í ljós hvort nefndin muni mæla með útvíkkaðri notkun bóluefnisins. Niðurstöðu er að vænta í júní nema CHMP telji frekari gagna þörf til að komast að henni. Lyfjastofnun Íslands mun miðla um niðurstöðuna þegar hún liggur fyrir að því er segir á vef stofnunarinnar.

mbl.is