Verði að bregðast við tíðindum frá El Salvador

Harris á ráðstefnunni í dag.
Harris á ráðstefnunni í dag. AFP

Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna segir að bandarísk stjórnvöld verði að bregðast við árásum yfirvalda í El Salvador á sjálfstæði dómstóla í ríkinu. Einnig verði að bregðast við þeirri spillingu sem hrjái Mið- og Suður-Ameríku.

„Um helgina þá fengum við að vita að salvadorska þingið gerði atlögu að æðsta rétti landsins,“ sagði hún í ræðu sinni í dag á árlegri ráðstefnu í Washington um heimshlutann.

„Sjálfstæður dómstóll er nauðsynlegur fyrir heilbrigt lýðræði og sterkan efnahag. Á þessum vígstöðvum, á öllum vígstöðvum, þá verðum við að bregðast við,“ sagði Harris, án þess þó að skilgreina með hvaða hætti ætti að bregðast við.

Nayib Bukele, forseti El Salvador.
Nayib Bukele, forseti El Salvador. AFP

Lofað yfirgripsmiklum aðgerðum

Pólitískur jarðskjálfti hefur riðið yfir El Salvador eftir að þingið kaus að leysa þá hæstaréttardómara af störfum sem þykja óvinveittir forsetanum Nayib Bukele. Stjórnarandstaðan hefur kallað ákvörðunina valdarán og hefur hún valdið áhyggjum utan landsteinanna.

Harris, sem á samkvæmt fyrirskipun forsetans Biden að hafa yfirumsjón með straumi innflytjenda til Bandaríkjanna, hefur lofað yfirgripsmiklum aðgerðum gegn grundvallarástæðum þess að innflytjendur flykkist að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó í von um betra líf.

Hefur hún bent á spillingu, ofbeldi, fátækt og skort á atvinnutækifærum í þessu samhengi.

„Við munum ekki ná marktækum árangri ef spilling heldur áfram í heimshlutanum,“ bætti hún við.

mbl.is