Hafna því að kosningasvik hafi átt sér stað

Aung Sang Suu Kyi.
Aung Sang Suu Kyi. AFP

Þremur mánuðum eftir valdarán í Mjanmar hafa óháðir einstaklingar sem fylgdust með kosningunum árið 2020 hafnað kröfum hersins um að kosningasvik hafi átt sér stað. Þetta segir á vef BBC.

Mjanmarski herinn hefur réttlætt valdaránið á þeim forsendum að um gríðarleg kosningasvik hafi verið að ræða, án þess að hafa lagt fram nokkrar sannanir.

Aung San Suu Kyi var kosin leiðtogi Mjanmar í kosningunum en henni var steypt af stóli í valdaráninu og hefur frá 1. febrúar sætt fangelsisvist. Síðan þá hefur hún einungis sést á myndbandi.

Frá mótmælum í Mandalay, Mjanmar, í dag.
Frá mótmælum í Mandalay, Mjanmar, í dag. AFP

Fylgst var með kosningum á meira en 400 kjörstöðum og segir í niðurstöðum skýrslu þeirra sem fylgdust með kosningunum að útkoma atkvæðagreiðslunnar hafi táknað vilja þjóðarinnar. Þá kom fram að sú ákvörðun hersins um að hunsa niðurstöður kosningarinnar væri „óforsvaranleg“.

„Þrátt fyrir Covid-19-heimsfaraldur, kusu 27,5 milljónir manna þökk sé starfsfólki á kjörstað og heilbrigðisyfirvöldum, ekki er hægt að þagga niður í rödd þeirra,“ sagði í niðurstöðum skýrslunnar.

mbl.is