Norður-Kórea búi sig undir viðræður við Bandaríkin

Kim Jong-un á landsfundi Verkamannaflokksins í gær.
Kim Jong-un á landsfundi Verkamannaflokksins í gær. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, segir að þjóð hans verði að búa sig undir „viðræður og ágreining“ við Bandaríkin. Ríkið þurfi „sérstaklega að vera alveg búið undir átök“.

Kim hefur ekki áður talað sérstaklega um Joe Biden Bandaríkjaforseta. Hann hefur áður horft fram hjá tilraunum Bandaríkjanna til þess að koma á sambandi á milli ríkjanna. 

Á landsfundi ráðandi Verkamannaflokks Norður-Kóreu í höfuðborginni Pyongyang sagði Kim einnig að ríkið muni bregðast við þróun á Kóreuskaganum af hörku. Samband Kim og Biden hefur verið markað af mikilli spennu. Áður en Biden náði kjöri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember á síðasta ári kallaði hann Kim „óþokka“ og fáeinum dögum fyrir innsetningarathöfn forsetans í janúar sendi Norður-Kórea skýr skilaboð með umfangsmikilli hernaðarsýningu. 

Í apríl sagði Biden að Norður-Kórea væri ógn við alþjóðlegt öryggi. Norður-Kórea brást við ummælunum og sagði þau endurspegla áætlanir Biden um að „viðhalda óvinveittri stefnu“ gagnvart landinu. 

Frétt BBC.

mbl.is