Veirufríir dagar Ástrala mögulega taldir

Sýnataka í Sydney.
Sýnataka í Sydney. AFP

Eftirsóknarverð staða Ástrala, sem nokkurs konar vin í heimsfaraldri Covid-19, er nú í hættu. 

Sérfræðingar hafa varað við að ólíklegt sé að hægt sé að snúa aftur í smitlausa stöðu í landinu miðað við tölfræði sem liggur fyrir um hið verulega smitandi delta-afbrigði. 

Eftir langan tíma án innanlandssmits er fjöldi kórónuveirusmita í Sydney nú orðinn 4.610. Metfjöldi smita greinist dag eftir dag þrátt fyrir víðtækar lokanir. 

Hægt en örugglega hafa stjórnvöld breytt orðræðu sinni úr því að sigrast á veirunni yfir í að halda henni í skefjum. 

„Miðað við stöðuna sem nú er uppi, og reynsluna af deltaafbrigðinu í öðrum löndum, þurfum við nú að lifa með deltaafbrigðinu með einum eða öðrum hætti, það er nokkuð ljóst,“ sagði Gladys Berejiklian, ráðherra Nýja Suður-Wales í Ástralíu. 

Fram að þessu hafa yfirvöld í Ástralíu talað um smitleysi sem markmið í baráttunni við veiruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert